138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:09]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að mótmæla því að ég hafi aðallega dvalið við fortíðina. Ég veit ekki betur en að ég hafi einmitt reynt að brýna fyrir núverandi stjórnarflokkum að taka niðurstöður rannsóknarskýrslunnar til sín og hlusta á gagnrýnisraddir þeirra sem telja efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ekki vera þá bestu sem völ er á fyrir íslenskan almenning.

Auk þess gat ég þess að mér þætti nauðsynlegt að flokkarnir breyttu ekki bara reglum sínum heldur líka gildum, stefnu og starfsháttum. Ég vonast til þess og vil endurtaka að ég hef þær væntingar að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn fari í enn frekari naflaskoðun en hann segist hafa farið í nú þegar, að hann endurskoði ekki síst stefnu sína hvað varðar stóriðjuframkvæmdir og afskiptaleysi af atvinnulífinu og ekki síst þá stefnu að leggja áherslu á vöxt einstakra fyrirtækja frekar en að standa vörð um velferðina í samfélaginu. (Gripið fram í.)