138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, sérstaklega varðandi siðferðisþáttinn og hvar menn hafa farið út af sporinu á því sviði. Ég get tekið undir mjög margt sem hún sagði en hún var hins vegar með eina fullyrðingu sem mig langar til að fá nánari skýringu á.

Mér heyrast nokkrir samfylkingarþingmenn vera í þeim herleiðangri að hvítþvo hæstv. forsætisráðherra, því að hv. þingmaður sagði að Jóhanna Sigurðardóttir hefði varað við skuldasöfnun. Ég man aldrei eftir því. Ég vil gjarnan að hv. þingmaður staðfesti einhvern veginn að hæstv. forsætisráðherra hafi á sínum tíma varað við skuldasöfnun. Ég man ekki betur en hún væri stöðugt að hvetja til aukningar, sérstaklega varðandi aldraða, öryrkja og aðra sem eru minni máttar í þjóðfélaginu. Ég man ekki betur en að stöðugar kröfur væru um aukin útgjöld til velferðarmála og það er ágætt. Ég hef bent á það fyrr í dag að aukning útgjalda vegna velferðarmála var gífurleg í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í 18 ár og það var vegna þess að við vorum í samstarfi við flokka sem vildu gjarnan auka á velferðarmálin. Ég man ekki til þess að hæstv. núverandi forsætisráðherra hafi á þeim tíma varað við skuldasöfnun.