138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[18:25]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aukin ríkisútgjöld til félagslegra þarfa eru ekki það sama og skuldasöfnun þjóðarbúsins. Þau eru spurning um forgangsröðun og áherslur vel meinandi stjórnmálamanna sem vilja vinna sínu samfélagi gagn. Það ættum við öll að hafa hugfast. Sagan er auk þess staðreynd. Við breytum henni ekki. Þessi skýrsla leiðir okkur í ljós ýmsar ömurlegar staðreyndir um það sem misfarist hefur í okkar samfélagi og við skulum ekki vera í neinni afneitun gagnvart því, hv. þm. Pétur Blöndal. Við skulum frekar taka höndum saman um að reyna að draga af þessu lærdóm og byrja á upphafi sem getur talist skref til farsælli vegferðar en þeirrar sem við höfum gengið fram að þessu.