138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:12]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við lestur skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir bankahrunsins, og hér skal skýrt tekið fram að þeim lestri mínum er fráleitt lokið, setur jafnt að manni óhug og kjánahroll. Þessi þróttmikla og vandaða skýrsla, skrifuð á mannamáli, er samfelldur áfellisdómur yfir ömurlegri og stórhættulegri hugmyndafræði, líklega stærstu hagstjórnarmistökum síðari ára, drambi og ófyrirleitni ofmetinna stjórnmálaforingja, úr sér gengnum stjórnmálavenjum, flokkshagsmunum sem voru ofar þjóðarhagsmunum, einsleitri og staðnaðri stjórnsýslu í vinasamfélagi Arnarhóls, lítilsvirtu og sljóu löggjafarvaldi, gjaldþrota siðferðisgildum atvinnulífsins svo að stappar nærri bilun, stórkostlegri veruleikafirringu og þeirri staðreynd að það tók einkaframtakið innan við þrjú ár að steypa bönkunum á gjafvirði í glötun.

Virðulegi forseti. Þetta er allnokkuð. Fyrst og síðast er skýrslan afhjúpandi og fyrst og síðast er hún lærdómsrit. Hún skal verða lærdómsrit í bráð og hún skal verða lærdómsrit í lengd. Hér þurfa að verða kaflaskil hvað snertir ábyrgðartilfinningu kjörinna fulltrúa þjóðarinnar, embættismanna hennar og stjórnenda atvinnulífsins.

Nei, Ísland skal aldrei verða frjálsasta land í heimi árið 2015 eins og Viðskiptaráð Íslands boðaði í miðri veislunni sem öll var tekin að láni með giska svívirðilegum hætti. Ísland skal miklu fremur verða ábyrgasta land í heimi eftir hálfan áratug – og það þjóðfélag sem býður upp á jöfnustu lífskjörin og kröftugustu velferðina. Frjálst vissulega, en ekki afskiptalaust.

Slysið, frú forseti, já, slysið í íslensku samfélagi, gerðist með þeim hætti að stjórnmálin létu viðskiptalífinu í hendur meginvaldið. Frelsið, þetta líka dásamlega frelsi, skyldi þýða afskiptaleysi hins opinbera, full yfirráð einkageirans yfir örlögum og kjörum almennings. Þetta var slysið sem líklega er vægt orð í þessu samhengi og væri nær að tala um hamfarir af manna völdum.

Við lestur skýrslunnar kemur skýrt fram að ein meginábyrgð bankahrunsins hvílir á herðum nýríkra eigenda og stjórnenda þriggja helstu banka landsmanna sem skófluðu virði þeirra ofan í eigin veski, réðu hóp nýgræðinga í kringum sig og hentu út bankareynslu og bankahefðum. Varla verður sjúklega vitfirrt græðgisvæðingin orðuð betur en í pósti fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings til undirmanns síns í Lúxemborg þann 9. júlí 2008, með leyfi forseta:

„Hæ Magnús, við gengum ekki frá bónus fyrir síðasta ár. Ég legg til 1 milljón evra. Hvað segir þú?“

Og svar undirmannsins, virðulegur forseti, er giska einfalt:

„Takk. Meira en nóg.“ — Svarinu fylgir svo broskarl.

Prinsippin voru einmitt þessi fram á síðasta dag. Og prinsipp þess sem tók upp undir þúsund milljarða að láni í íslensku bönkunum allt þar til yfir lauk var líka ósköp einfalt. Hans prinsipp var að vera ekki með persónulegar skuldir. Einmitt það. Hann og félög honum tengd tóku þúsund milljarða að láni en þetta var vitaskuld aldrei persónulegt. Allt heila bankaránið var auðvitað ekki persónulegt. — Þetta eru miklir broskarlar.

Hefur eitthvað breyst, virðulegur þingforseti? Nei, margar helstu persónur hrunskýrslunnar eru enn að, og það í meira lagi: Þær eiga enn þá stærstu fjölmiðlana, þær eiga enn þá eitt stærsta skipafélagið, þær eiga enn þá annað stærsta flugfélagið og Bakkavararbræður stjórna enn þá því fyrirtæki. Menn fá fyrirtækin aftur og aftur, en ekki skuldirnar. Viljum við það?

Virðulegur forseti. Þrátt fyrir gríðarlega ábyrgð þessara öfgafullu einstaklingshyggjumanna á bankahruninu, sem líklega var ekki hægt að koma í veg fyrir allt frá árinu 2006 — röskum tveimur árum fyrir sjálfa kollsteypuna — má aldrei gleyma undanfara þess að svona fór. Einkavæðing ríkisbankanna tveggja í upphafi aldarinnar er galnasta meðferð á eigum ríkisins í síðari tíma sögu íslenska ríkisins. Hún er vítaverð meðferð á opinberum fjármunum og heyrir til vanrækslu á öllum skyldum framkvæmdarvaldsins. Aldrei í síðari tíma þingsögu hefur framkvæmdarvaldið lítilsvirt löggjafann með jafnóforskömmuðum hætti og við einkavæðingu ríkisbankanna, nema ef vera kynni í Íraksmálinu. Aldrei í síðari tíma sögu Alþingis hefur Íslandi verið stjórnað af jafnmiklu ofríki örfárra manna.

Virðulegur forseti. Það er raunalegt, eiginlega grátlegt, að lesa lýsingu embættismannsins Steingríms Ara Arasonar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar á sjálfu einkavæðingarferlinu við dagsbrún nýrrar aldar. Sala bankanna til útvalinna, já, kviknakin helmingaskiptin, fór fram á harðahlaupum á göngum ráðuneytanna og ákvörðunin var á endanum aðeins tekin af tveimur forustumönnum gamalla valdaflokka, að því er sýnist, sem sáu undir restina að þeir einir gátu tryggt ómenguð helmingaskiptin og áframhaldandi aðgang flokksklíkunnar að stjórnum bankanna og þar með fjárstuðningi þeim til handa.

Hin breiða eignaraðild breyttist með einu handapati og óðagoti í vel klædda kjölfestufjárfesta, sérvalda gæðinga sem buðu ekki einu sinni best og hæst — og sér var nú hver kjölfestan, virðulegur forseti, sér var nú hver kjölfestan. Hún var engin; fleyið var hriplekt frá byrjun af því enginn þessara karla kunni til verka, þeir kunnu það eitt að græða, skara eld að eigin köku. Hér var ríkið að afhenda mönnum innlán almennings; mönnum sem höfðu enga bankareynslu og — eins og síðar kom í ljós — enga ábyrgðartilfinningu.

Virðulegur forseti. Einkavæðing ríkisbankanna á sínum tíma er vítaverðasta meðferð á opinberu fé á seinni árum. Hún lýsir fullkomnu vanhæfi stjórnmálamanna og stjórnsýslu. Það er á þessum grunni sem einkageiranum var boðið til veislu á Íslandi. Og nú gengst enginn við ábyrgð, eins og lesa má úr skýrslunni. Ávísanakerfi kerfisins er samt við sig, þar vísar hver á annan.

Nú þarf að spyrja stórra spurninga. Þetta mikla og löngu þarfa lærdómsrit rannsóknarnefndarinnar kallar á ítarleg svör við grundvallarspurningum. Við þekkjum rót vandans, sem felst í óheftri frjálshyggju, klíkustjórnmálum og sérhagsmunagæslu, en vitum við hvernig beygt verður af þessari leið? Spurningarnar eru þessar:

Getum við treyst einkaframtakinu aftur til að geyma og ávaxta sparnað almennings með tryggum og ábyrgum hætti? Er íslenska einkaframtakið nógu agað, heiðarlegt og siðað til að geyma peninga annarra? Fer kraftur einkaframtaksins saman við eðlilega íhaldssemi í hefðum bankastofnana? Stenst hið frjálsa hagkerfi ef regluverkið á að vera ráðandi? Stenst í rauninni sú trúarskoðun frjálshyggjuaflanna að frelsi og ábyrgð séu tvær hliðar á sama peningi?

Þingheimur og þjóðin öll þarf að svara því eftir lestur skýrslunnar hvernig bankakerfi hún vill hafa í landinu. Kannski er við hæfi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um rekstrarform helstu fjármálastofnana á Íslandi.

Virðulegur forseti. Nokkur atriði eru hér ljós:

Stokka þarf stjórnsýsluna upp. Embættismannakerfið er vinafélag nokkuð einsleits hóps í sama póstnúmerinu í Reykjavík.

Auka þarf sjálfstæði eftirlitskerfisins sem er, sakir nálægðar, hliðhollt einsleitu embættismannakerfi.

Aðskilja verður löggjafarvald og framkvæmdarvald algerlega og endanlega og breyta nefndavinnu Alþingis svo að þingið fái frið fyrir ráðherraræðinu.

Tryggja þarf fræðimannasamfélaginu og fjölmiðlum lagalegt svigrúm til að upplýsa og veita aðhald með hvetjandi regluverki fremur en letjandi.

Virðulegi forseti. Af þingumræðum síðustu daga um hrunskýrsluna hefur mátt skynja nýjan blæ í orðræðu stjórnmálanna. Það er vel. Samstaða þingsins skilar meiru til samfélagsins en sundrungin og sú meginhugsun gamla stjórnmálavanans að aðrir flokkar hafi alltaf rangt fyrir sér. Við skulum hætta þeim leik.

Úr þessu púlti hefur verið boðin sátt af mörgum stjórnmálamönnum sem hér hafa talað. En sátt um hvað? Jú, það hlýtur að vera sátt um það að reyna aldrei aftur þá samfélagstilraun á Íslendingum sem setti þá í þrot. Sú sátt hlýtur að snúast um jöfnuð, ekki ójöfnuð.

Svo er hitt, síðast en ekki síst: Hin góða skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á að kenna okkur mannasiði. Það var kannski kominn tími til. Hún sýnir okkur að margt er að afsaka og að margir þurfa að biðjast afsökunar. Samfylkingin er þar engin undantekning.