138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er kannski við hæfi að taka undir með þeim rúmlega 20 þingmönnum sem talað hafa um að auðvitað hefur ekki gefist tími til að fara yfir þessa skýrslu á þeim tveimur sólarhringum sem liðnir eru frá útgáfu hennar. Ég leyfi mér að taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram á vinnubrögð í þinginu, að þetta skuli vera svona. Eðli málsins samkvæmt verður umræðan auðvitað yfirborðskenndari og ómarkvissari þegar ekkert okkar hefur haft tök á því að fara yfir skýrsluna, skoða hverjar eru forsendur þeirra ályktana sem dregnar eru og átta sig almennilega á því sem þarna kemur fram. Auðvitað höfum við keppst við að kynna okkur efni þessarar skýrslu og það liggur alveg ljóst fyrir að hér er um mikilvægt plagg að ræða, enginn velkist í vafa um það. Hér er brotið blað, má segja, í störfum okkar á Alþingi að skýrsla af þessu tagi skuli vera gerð á vegum þingsins. Sú samstaða sem tókst haustið 2008 um að fara í þessa vinnu hefur greinilega skilað verulegum árangri.

Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði er þetta lærdómsrit, þetta er rit sem við þurfum að kynna okkur til að læra af því. Við höfum þarna kannski í fyrsta sinn sæmilega heildstæða lýsingu á þeirri atburðarás sem leiddi til falls íslensku bankanna. Þarna kemur fram gríðarlega mikið af upplýsingum. Margt af því hafði komið fram með einhverjum hætti áður en hér er um að ræða frásögn í samhengi sem gefur okkur auðvitað gleggri mynd af þeirri atburðarás sem leiddi til bankahrunsins og þeirrar efnahagskreppu sem við stöndum í.

Við þurfum að nýta þessa skýrslu í störfum okkar. Það má auðvitað ekki verða svo að Alþingi setji af stað mikilvæga skýrsluvinnu þar sem gríðarlega mikið starf er unnið í sambandi við gagnaöflun og úrvinnslu upplýsinga ef ekki verður framhald á. Að einhverju leyti mun þingmannanefndin, sem hefur fengið það hlutverk að fara yfir efni skýrslunnar, gera tillögur á grundvelli hennar. Að hluta til fer málið í þann farveg. En skýrslan þarf auðvitað að nýtast okkur með víðtækari hætti en þar er gert ráð fyrir því að eðli málsins samkvæmt þurfti að skilgreina verkefni þeirrar nefndar með nokkuð þröngum og afmörkuðum hætti, en sá lærdómur sem við þurfum að draga af skýrslunni er auðvitað víðtækari.

Það er ljóst að þarna koma fram upplýsingar og hugsanlega niðurstöður sem gefa okkur tilefni til margvíslegra breytinga á laga- og regluumhverfi okkar og við þurfum að ganga til þess verks af skynsemi. Við þurfum að fara í íhugaðar breytingar vegna þess að sá lærdómur sem við getum dregið af þessari skýrslu sýnist mér vera að fljótræði sé ekki kostur í sambandi við lagasetningu og ákvarðanatöku heldur borgar sig í mörgum tilvikum frekar að anda með nefinu og taka yfirvegaðar ákvarðanir í staðinn fyrir að taka skjótar ákvarðanir. Ég held að það sé ákveðin lexía sem við getum lært af þessu.

Ég nefndi það að þarna er að finna nokkuð heildstæða lýsingu á atburðarás og í skýrslunni koma fram gríðarlega margar staðreyndir varðandi aðdraganda bankahrunsins sem við þurfum að kynna okkur og læra af. Í skýrslunni er líka að finna ályktanir eða mat þeirrar nefndar sem falið var þetta verkefni af hálfu þingsins og það er auðvitað mjög gagnlegt innlegg í umræðuna líka. Ég bendi þó á að við sem þingmenn hljótum að leggja sjálfstætt mat á það sem frá nefndinni kemur því að þó að hún hafi unnið gott verk og unnið það af dugnaði og heiðarleika þurfum við engu að síður að leggja mat á niðurstöður hennar eða ályktanir út frá okkar eigin forsendum og engin nefnd er svo vel skipuð eða vinnur svo vel að menn geti gagnrýnislaust tekið við öllu sem frá henni kemur. Það er heilbrigð skynsemi að meta hlutina þannig. Í köflum sem ég hef lesið er auðvitað um að ræða hluti sem eru matskenndir og kalla á frekari umræður áður en við drögum ályktanir. Við heyrðum í gær ákveðnar vangaveltur í sambandi við áhrif húsnæðislánabreytinganna á þær aðstæður sem ollu bankahruninu. Við höfum heyrt mismunandi skoðanir á vægi einkavæðingarinnar á ríkisbönkunum 2002. Það eru mismunandi sjónarmið uppi varðandi að hvaða leyti þessar ákvarðanir höfðu áhrif á þá atburðarás sem varð. Það er mikilvægt að staðreyndirnar í þessu máli liggi fyrir en við sem þingmenn getum ekki skorast undan þeirri ábyrgð að leggja sjálfstætt mat á þær niðurstöður sem þarna koma fram.

Ég nefndi áðan að hér væri um mikið verk að ræða og einstætt í sögu þingsins. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu er þetta einstakt plagg í miklu víðara samhengi vegna þess að mér er ekki kunnugt um að neins staðar annars staðar hafi á vegum nokkurs þings verið framkvæmd úttekt sem nær til jafnmargra og viðamikilla þátta og hér um ræðir. Við höfum litið til Norðurlandanna varðandi rannsóknarskýrslur þinga en þau dæmi sem ég þekki frá þeim löndum snúa fyrst og fremst að miklu afmarkaðri þáttum en hér eru undir þannig að þetta er einstakt í miklu víðara samhengi en í því íslenska. Það er auðvitað umhugsunarefni vegna þess að það hefur orðið fjármálahrun víðar en á Íslandi. Það er víðar en á Íslandi sem áhættusækni banka samhliða greiðum aðgangi að lánsfé hefur leitt til hruns. Ég held að á annað hundrað bankar í Bandaríkjunum hafi fallið, orðið gjaldþrota eða verið yfirteknir af hinu opinbera á síðustu tveimur árum. Í Bretlandi hafa stærstu bankarnir verið styrktir með gríðarlegum upphæðum úr ríkissjóði vegna þess að þeir voru komnir í ógöngur. En það er auðvitað rétt sem bent hefur verið á að aðstæður okkar hér á landi eru sérstakar að því leyti að fjármálakerfið hafði vaxið svo gríðarlega í samanburði við landsframleiðslu og aðrar hagstærðir að áhrif hins alþjóðlega bankahruns urðu miklu skelfilegri hér. Fjármálakerfið hafði vaxið okkur svo gríðarlega yfir höfuð og það sem þessi skýrsla leiðir í ljós, sem ýmsa grunaði kannski en sjá nú svart á hvítu, er að óábyrg hegðun leiddi til stórkostlegra veikleika í þessu fjármálakerfi. Það var ekki bara um að ræða mikla áhættusækni heldur óábyrga hegðun að ýmsu öðru leyti sem mun væntanlega reyna á fyrir dómstólum vegna sakamálarannsókna og málaferla í kjölfar þess. Það gerði það að verkum að hér voru innviðir fjármálakerfisins miklu veikari en sýndist og trúlega miklu veikari en í nágrannalöndunum þó að ákveðin tilhneiging ásamt áhættusækni, sækni í skjótan gróða og þess háttar hafi vissulega leitt vandræði yfir fjármálakerfi nágrannalandanna. Það er því alveg rétt sem hefur komið fram, grunnurinn að okkar vanda er innlendur. Þegar áföllin dynja yfir stöndum við svo rosalega illa að vígi þegar kemur að fjármálamarkaðinum. Það er eins og að menn sem fóru með stjórn bankamála hafi ekki áttað sig á því að (Forseti hringir.) styrkur banka þarf að koma fram bæði þegar vel árar en líka þegar herðir að.

Þetta er í mínum huga fyrst og fremst upphaf umræðu sem hlýtur að eiga sér stað í þinginu. (Forseti hringir.) Við erum rétt að byrja umfjöllun okkar. Umræðurnar í gær og í dag móta fyrstu viðbrögð en við eigum eftir að vinna mikið í þessum málum til að þetta plagg nýtist okkur með þeim hætti sem skyldi.