138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:32]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir yfirvegaða ræðu. Það á að vera okkur leiðarstef í þeirri umræðu sem fram undan er að hafa ræður okkar úr þessu púlti yfirvegaðar og málefnalegar, ég held að það sé hollast fyrir framvindu málsins. Í ræðu minni staldraði ég aðeins við þann lærdóm sem við verðum að draga af þessari skýrslu og hann skal vera margur og mikill. Mig langar að deila með hv. þm. Birgi Ármannssyni þeim spurningum sem ég setti fram í ræðu minni, hvernig við eigum að taka á þeim vanda sem blasir við í skýrslunni, þeim stjórnkerfisvanda og stjórnsýsluvanda sem blasir við, og hvernig við eigum að taka hann til okkar. Hvernig sér hv. þingmaður, sem ég veit að er þingreyndur og þingreyndari en sá sem hér talar, fyrir sér breytingar á störfum þingsins? Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talaði um það í ræðu sinni áðan að umræðuhefðin væri kannski ekki sem skyldi og hana þyrfti að laga.

Ég nefndi í ræðu minni að nefndastörf þingsins kynnu ef til vill að þurfa að breytast. Aukinheldur kom ég inn á það að embættismannakerfið er kannski að vissu leyti vinafélag nokkurra manna á einum og sama punktinum. Þar er nálægðin mikil, eftirlitið fyrir vikið kannski skakkt og tengslin allt of mikil á þessum eina punkti. Það er umhugsunarvert að öll stjórnsýslan og eftirlitskerfið sem á að fylgjast með henni eru þiggjendur nánast í sama mötuneytinu daginn út og daginn inn.

Mig langar að heyra viðbrögð hv. þingmanns við þessum hugleiðingum.