138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get sagt það fyrst að ég held að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sé með alveg réttar spurningar hérna. Ég ætla mér ekki þá dul að svara þeim öllum í þessu stutta andsvari, en ég get þó sagt að ég held að einn af þeim lærdómum, ef svo óhönduglega má að orði komast, sem við getum dregið af skýrslunni sé sá að við þurfum að efla þingið. Ég held að aðhald og eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu sé mikilvægara en nokkru sinni. Ég held að við þurfum hér í þinginu að taka í meira mæli til okkar frumkvæði og virkt eftirlit með því sem er að gerast á vegum framkvæmdarvaldsins. Svoleiðis leysir aldrei allan vanda en ég held að það sé að hluta til lausnin á því að veita það aðhald sem öllum er nauðsynlegt að hafa í störfum sínum.

Við í þinginu erum í beinni tengslum við kjósendur og berum beinni ábyrgð gagnvart þeim en þeir sem eru á framkvæmdarvaldsvængnum. Þess vegna má segja að í þingræðisfyrirkomulagi sé mikilvægt að þingið sé sá milliliður milli kjósandans og handhafa framkvæmdarvaldsins sem nauðsynlegur er. Ég tek því fyllilega undir það sem hv. þingmaður segir í þeim efnum.

Varðandi stjórnsýsluna. Jú, við höfum gott af því að endurskoða stjórnsýsluna. Við höfum reyndar ágætislagaramma hvað hana varðar en spurningin er sú hvernig honum er fylgt eftir í framkvæmd. Það stendur upp á okkur að fylgja því eftir. (Forseti hringir.)

Varðandi aðra þætti, verð ég að geyma það til síðara andsvars.