138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að við verðum að læra margt af því sem gerðist. Ég er þeirrar skoðunar að einkaaðilar geti og eigi að reka fjármálafyrirtæki en þeir eiga hins vegar að búa við öflugt regluverk vegna þeirrar viðkvæmu starfsemi sem þeir hafa með höndum. Það þarf líka að vera á hreinu að þeir einkaaðilar sem reka fjármálafyrirtæki beri þá ábyrgð sem því fylgir. Ég held því að bein eða óbein ríkisábyrgð á rekstri banka sé ekki af hinu góða vegna þess að ég held að það geti leitt til ábyrgðarleysis. Ef þeir sem eiga og reka banka geta með einhverjum hætti stólað á að þeim verði bjargað ef illa fer er hætta á því að það leiði til áhættusækni. Ég óttast að það hafi hugsanlega verið undirliggjandi í íslenska bankakerfinu fram til þessa að menn hafi stólað á það að ef illa færi mundi ríkið hlaupa undir bagga með þeim. Ég held að það geti leitt til óábyrgrar hegðunar.

Við höfðum ekkert sérstaklega góða reynslu af því að reka ríkisbanka, ég held að það sé ekki lausnin. Ég á líka bágt með að sjá fyrir mér fyrirkomulag þar sem við erum með ríkisbanka í samkeppni við einkabanka. Ég held að það sé ekki gott fyrirkomulag þegar ríkið er í virkri samkeppni við einkaaðila. Ég held að það skekki stöðuna mjög mikið.

Hitt er alveg á hreinu að við þurfum að tryggja að regluverkið sé skýrt og öflugt, eftirfylgni með því góð. Ég held að það sé alveg ótvírætt að við getum kannski ekki komið í veg fyrir óábyrga hegðun en við getum dregið úr hættunni á henni. Um leið þurfum við að velta fyrir okkur (Forseti hringir.) hlutafélagafyrirkomulaginu, hlutafélagalögum, m.a. til þess að tryggja stöðu minni hluthafa þannig að stórir hluthafar geti ekki skarað eld að eigin köku á kostnað hinna minni.