138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað gæti háskólinn innkallað prófin eins og Toyota gerði og sagt að menn þurfi að bæta sig á vissum sviðum. Hæstv. ráðherra svaraði ekki þessu síðasta um kattasmölunina, en hún talaði einmitt um að efla þurfi Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held við höfum sjaldan upplifað annað eins og síðastliðin eitt eða tvö ár, eftir að þessi ríkisstjórn tók við, hvað mikið er um ólýðræðisleg vinnubrögð. Ég minni bara á skattalögin sem fóru hér í gegn gjörsamlega án umræðu, án samráðs við einn eða neinn. Ég minni á aðildarsamþykktina að Evrópusambandinu, eins og ég gerði hér áðan. Þetta er mjög hörð atlaga að lýðræðinu. Ef flokksræðið veldur því að lítill hluti í einhverjum flokki getur kúgað minni hlutann til að gera eitthvað, svo minni hlutinn í öðrum flokki geti kúgað meiri hlutann, þá getur verið að minni hluti Alþingis samþykki eitthvað sem meiri hlutinn er á móti.