138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra má ekki skilja það svo að ég telji að það sé alveg þýðingarlaust að menn ræði og setji sér siðareglur. Hins vegar vara ég við oftrú á slíkum lausnum. Ég vara við oftrú á því að menn telji að með því að setja saman einhver háleit markmið og fögur orð, einhver „manifesto“ sem eiga að lýsa óskaplega lýðræðislegum hugsunarhætti, vinnubrögðum og faglegum þáttum, ég vara við því að menn láti sér það nægja að tala hástemmt um slíka hluti en praktísera svo eitthvað allt annað. Því miður, og þar verð ég að vega að hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórninni, finnst mér að núverandi ríkisstjórn hafi einmitt gert þetta. Það er mikið tal um háleit markmið, um lýðræði og um fagleg vinnubrögð og hvað það allt heitir, en í praxís er því í engu fylgt. Það er bara böðlast (Forseti hringir.) áfram með yfirgangi en hin háleitu markmið (Forseti hringir.) eru bara eitthvað til að skreyta sig með á tyllidögum.