138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á þeim orðum ég sagði, að hann væri fulltrúi einhvers flokks á Alþingi, ég veit það fullvel sjálf að við erum fyrst og fremst fulltrúar þjóðarinnar. Ég tók svona til orða kannski vegna þess að þetta hefur verið svo lengi með þessum hætti. En svo sannarlega er ég sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal, við erum hér sem einstaklingar og við skulum akkúrat fylgja skoðun okkar, og hann fór yfir það í andsvari sínu hvað hjarðhegðun þingmanna og flokksræði undanfarinna ára hefur leitt yfir okkur.

Varðandi það að Alþingi taki aftur löggjafarvaldið til sín, það er löngu orðið tímabært, og raunverulega væri það skoðunarefni fyrir sagnfræðinga og lögfræðinema að skoða, kanna og rannsaka þá þróun sem hefur leitt til þess að löggjafarvald Íslendinga er komið út í bæ. Það er alveg hreint með ólíkindum, og ég áttaði mig hreinlega ekki á því fyrr en ég tók sæti sjálf sem þingmaður, hvað Alþingi er raunverulega orðin máttlaus stofnun gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég gerði það að gamni mínu í morgun að athuga með fjárveitingar annars vegar til löggjafans og hins vegar til reksturs ráðuneyta og þá er ég að tala um skrifstofur ráðuneytanna. Ég minni á að í tíð Samfylkingarinnar frá 2007 og fram að hruni uxu ráðuneytin um 32–40%, samfylkingarráðuneytin. Þetta eru óhuggulegar staðreyndir. Löggjafarvaldið hefur á fjárlögum tæpa 2 milljarða á meðan skrifstofur ráðuneytanna hafa 5 milljarða. Hvernig á svo óburðugt Alþingi að geta starfað og sett einhver lög af viti? Ég nefndi það í ræðu minni í gær að hér hefði verið stunduð kranalagasetning, þingmaðurinn talaði um það líka, því að það er engu líkara. Ég hef orðið vitni að því í vinnu minni á nefndasviði í þeim nefndum sem ég sit að það koma fullsmíðuð frumvörp inn í þingið og raunverulega hafa þingmenn ekkert um þau að segja út af þeirri ríku hefð að hér hafa um ómunatíð, með örfáum undantekningum, verið meirihlutastjórnir sem geta knúið frumvörp í gegnum þingið og gert að lögum, (Forseti hringir.) jafnvel þó að þau standist ekki stjórnarskrá eða fari í bága við alþjóðasamninga og önnur lög.