138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:40]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það stóra í þessu sem gerðist í bönkunum og það sem við erum að lesa um í skýrslunni, oft og tíðum reyfarakenndar frásagnir, sé að stórum hluta vegna þess að menn fóru ekki eftir settum reglum. Það er nokkuð sem þarf að rannsaka.

Sá lærdómur sem ég vil draga af þessu sem alþingismaður og er nokkuð sem hv. þingmaður kom aðeins inn á í andsvari sínu er að ég held að alþingismenn, kjörnir fulltrúar og þeir sem hér eru, þurfi að hafa miklu betri innsýn og upplýsingar um þau lög og reglur sem þau setja sjálf. Það er ekki nóg að setja lög og átta sig síðan ekkert almennilega á því hvaða afleiðingar löggjöfin hefur.

Það hefur verið talað um það hér að eftirlit hafi brostið og að menn hafi ekki fylgst nógu vel með, það hafi verið það sem hafi bilað í þessu öllu saman. Það er nákvæmlega það sama. Hefur Alþingi einhverja þýðingu þar, hefði það átt að bregðast eitthvað við? Það er þetta sem mér finnst skipta svo miklu máli. Hv. þingmaður spyr hvort Alþingi hafi glatað trausti. Ég held, eins og ég sagði í máli mínu, að Alþingi verði að taka sér það vald sem það hefur og hefur alltaf haft.

Við erum með hefð fyrir meirihlutastjórnum hér, það er ekkert nýtt. Það breytir því ekkert að Alþingi hefur gríðarlega mikið vald samkvæmt stjórnarskrá og jafnvel þótt við breyttum stjórnarskránni er það ekki nóg ef viðhorf Alþingis til verkefnisins breytist ekki líka. Það er þetta sem mér finnst skipta svo miklu máli.