138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:45]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt grundvallarhlutverk Alþingis er að setja stjórnlög og eitt mikilvægasta verkefni þingsins er að gera breytingar og átta sig á þeim breytingum sem þarf að gera á stjórnarskrá, koma þeim á og ræða þær hér á Alþingi. Í því umróti sem orðið hefur í kjölfar hrunsins hefur það verið skoðun margra að það þurfi að taka þetta hlutverk af Alþingi og setja á sérstakt þing til að fjalla um stjórnlög sem síðan eigi að koma með þá afurð til Alþingis og Alþingi eigi að ræða hana. Með vísun til þess sem ég hef áður sagt um stöðu Alþingis og mikilvægi þess að efla Alþingi er það eindregið mín skoðun að ef Alþingi ætlar sér að endurvinna það traust sem margir telja að það hafi tapað vegna þess hruns sem hér hefur orðið, og vegna ýmissa annarra hluta, t.d. þeirra atburða sem nú eru uppi í þjóðfélaginu — það er eindregið mín skoðun að Alþingi endurheimtir ekki traust í landinu ef það ætlar að afsala sér grundvallarhlutverki Alþingis sem er að breyta stjórnarskrá.

Ef það er skilningur hv. þm. Þráins Bertelssonar að þingmenn eigi núna að horfa í eigin barm og horfa til þess að vegur Alþingis sé sem mestur held ég að það sé upplagt fyrir hv. alþingismenn að velta einmitt þessu fyrir sér: Hvernig eigum við að bregðast við því þegar það er skoðun stórs hluta alþingismanna að aðrir en Alþingi eigi að setja stjórnlög? Mér finnst þetta ekki vera ásættanleg niðurstaða. Ég vil að alþingismenn finni út úr því að koma á breytingum (Forseti hringir.) á stjórnarskrá á vettvangi Alþingis sjálfs.