138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:06]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Brotalamirnar fyrst. Þar horfi ég fyrst og fremst til þess sem vantar upp á í skýrslunni og þar vísa ég í tillögur sem fram komu á Alþingi sem hefðu orðið mjög til bóta og beint þróuninni á annan veg ef þær hefðu verið teknar alvarlega. Mér finnst ekki gert nóg úr Alþingi að þessu leyti. Í þessu er fólgin gagnrýni á þáverandi stjórnvöld fyrir að hafa ekki hlustað á þau rök sem þarna voru reidd fram. Mér finnst vera ákveðin brotalöm að gera ekki betur grein fyrir þessu.

Síðan nefndi ég staðreyndavillur sem lúta að Íbúðalánasjóði. Það eru náttúrlega brotalamir sem mikilvægt er að leiðrétta. Margt orkar síðan tvímælis. Þar tók ég sem dæmi álitamál sem snúa að vöxtum. Það er ekkert algilt í þeim efnum. Það er álitamál en ég þó hef miklar efasemdir um afstöðu skýrsluhöfunda hvað það snertir. Ég vil þó segja að allt þetta er smávægilegt miðað við þau verðmæti sem eru fólgin í skýrslunni að því leyti að hún er umræðugrundvöllur til að ræða það sem þar kemur fram og líka hitt sem á skortir. Mér finnst mikilvægt að þessari umræðu verði haldið áfram og ábendingum komið á framfæri við þá nefnd sem tekur hana til umfjöllunar um það sem missagt er í skýrslunni.

Hvaða stjórnvaldsaðgerðir eru mikilvægastar? Ég held að þetta sé safn aðgerða. Þetta er röð aðgerða. Það sem skiptir fyrst og fremst máli held ég, ofar öllu öðru, er hugarfarið, afstaðan, (Forseti hringir.) doðinn, foringjaræðið og hjarðmennskan og (Forseti hringir.) viðfangsefni okkar er að breyta þessu.