138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hennar og get tekið undir hvatningu hennar um að við eigum öll að taka þessa skýrslu alvarlega. Ég verð hins vegar að leiðrétta það sem fram kom í máli hæstv. umhverfisráðherra þegar hún segir að formenn Sjálfstæðisflokksins, núverandi og fyrrverandi, hafi vikið sér undan ábyrgð sinni. Ég er algjörlega ósammála því. Formenn Sjálfstæðisflokksins, bæði núverandi og fyrrverandi, hafa þvert á móti algerlega viðurkennt ábyrgð sína á þeim hlutum sem þeir báru ábyrgð á og hafa tiltekið margvísleg mistök sem gerð hafa verið í ferlinu þannig að mér finnst ómaklegt að segja þetta.

Eins og ég sagði í ræðu minni í gær: Það víkur sér enginn undan ábyrgð á því sem gerst hefur í fortíðinni. Þegar hrunið sjálft er rannsakað, þegar bent er á hið augljósa, er ábyrgðina á því að sjálfsögðu helst að finna innan bankanna sjálfra og því framferði sem þar var, þeim viðskiptaháttum og þeim starfsháttum sem þar voru viðhafðir. Ég held að við öll hljótum í allri sanngirni að geta tekið undir það. Og ég ítreka að það víkur sér enginn undan ábyrgð á þeim þáttum sem snúa að stjórnsýslu, stjórnmálum, efnahagsmálum og því sem m.a. er fjallað vel um í skýrslunni.

Annað, ég hef ekki heyrt þau ummæli fyrrverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, sem lýstu honum til minnkunar að hann hafi sagt að stjórnsýslan mætti ekki batna. Þvert á móti, ég hef heyrt hann margoft tala um það að ýmislegt mætti betur fara og hann hefur lýst því í löngu máli.

En lærum endilega af þessu. Hvað með t.d. vinnubrögðin í Icesave-málinu? Eigum við að læra af því sem er að gerast einmitt núna? Hvað með það að við fáum ekki að vita skilmálana í viljayfirlýsingunni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? (Forseti hringir.) Lærum einmitt af þessu og lærum öll, lærum með því að sýna núna (Forseti hringir.) að við tökum mark á því sem farið hefur úrskeiðis og við ætlum ekki að endurtaka það.