138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki að hlaupast undan pólitískri ábyrgð en ég er ósammála hæstv. ráðherra þegar hún segir að þetta sé viðhorf og sýn og ákveðin stjórnmálahugmyndafræði.

Ég sagði það hér í gær og ég segi það aftur og segi það enn: Ég ætla að berjast fyrir frelsi vegna þess að ég tel frelsi mjög mikilvægt. En frelsið má aldrei vera á kostnað ábyrgðar. Og fyrst hæstv. ráðherra nefndi barnauppeldi getum við aldrei treyst börnunum okkar ef við veitum þeim ekki frelsi. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherranum með það að við horfum ekki á börnin okkar fara sér að voða, en það kemur að því að við innprentum þeim guðsótta og góða siði en einhvern tíma verðum við að hleypa þeim af stað út í lífið. Við verðum, og það er það sem þetta snýst allt um, að hafa traust. Það brást, ábyrgðin brást, og þar er ég sammála.

En ég er (Forseti hringir.) ósammála því að hér hafi sérstaklega skort á regluverk. Það voru reglur og við erum að fara núna nákvæmlega (Forseti hringir.) yfir það hvaða reglur brugðust, hverjar voru of rúmar og hverjar voru brotnar. (Forseti hringir.) Áður en við gerum það held ég að við þurfum að skoða (Forseti hringir.) hvað það var sem brást (Forseti hringir.) áður en við förum að banna (Forseti hringir.) alla skapaða hluti, frú forseti.