138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:31]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvar hennar. Ég má til með að segja stutta reynslusögu þó að hún rúmist tæpast innan þeirra tveggja mínútna sem ég hef hér til þess að svara andsvarinu. Það snýst um það menningarsjokk sem sú sem hér stendur varð fyrir við það að hætta að starfa í hreppsnefnd Reykjavíkurhrepps og taka að því loknu sæti við borð framkvæmdarvaldsins á Íslandi.

Af hverju var það? Það er fyrst og fremst vegna þess, sem þingmaðurinn víkur hér að í andsvari sínu, að ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald. Sveitarstjórnir landsins eru þannig samsettar að þær setjast yfir mál, koma sér saman um niðurstöðu, greiða um það atkvæði og leiða mál til lykta með lýðræðislegum meiri hluta. Þar er framkvæmdarvaldið í þeim skilningi sett saman úr bæði meiri hluta og minni hluta. Staða minni hlutans hér í þinginu er líka umhugsunarefni. Þegar við erum að tala um lýðræðislega stöðu minni hlutans finnst mér t.d., og ég held að það sé allt í lagi við séum róttæk hér þegar við erum að ræða um svo róttæka hluti sem þessi skýrsla er, að staða minnihlutaþingmanna í þingnefndum sé umhugsunarefni. Geta minnihlutaþingmenn ekki leitt þingnefndir rétt eins og meirihlutaþingmenn? Er það ekki til þess að styrkja stöðu þingsins í heild og þá staðreynd að hver þingmaður hefur sína stöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu, sama hvort það er að því er varðar lagasmíð eða hið bráðnauðsynlega aðhaldshlutverk? (Gripið fram í: Góð hugmynd.)

Ég tek því undir þau sjónarmið og mér finnst að við eigum að leyfa okkur að stíga þau róttæku skref sem þessi skýrsla gefur tilefni til þó að ég viðurkenni hér, og það er vonum seinna að ég viðurkenni það í ræðum mínum og andsvörum í þessari umræðu, að ég hef ekki náð að lesa síðurnar 2.600.