138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er tvennt sem ég vil hafa orð á. Í fyrsta lagi segir hæstv. ráðherra að landslagið sé að sveiflast frá einstaklingshyggju til samhygðar og slíkrar hyggju, andstæðrar hyggju. Ég ætla að spyrja hann um öryrkjadóminn, sem var kórónan á einstaklingshyggjunni, hvort hún telji að öryrkjar sem eiga maka þurfi að óttast að farið verði að taka tillit til félagslegrar stöðu þeirra en ekki einstaklingshyggjunnar.

Ég vil líka spyrja hann um aðild að Evrópusambandinu. Þann 16. júlí var rædd aðildarumsókn að Evrópusambandinu og það var síðari umræða. Þar segir hæstv. ráðherra, með leyfi frú forseta:

„Ég hef þá sannfæringu að lýðræðið sé fyrir borð borið í Evrópusambandinu vegna þess að valdið er of langt frá fólkinu. Ég hef þá sannfæringu að markmið Evrópusambandsins sé að vera stórt og sterkt og hugsanlega sjálfstæður gerandi í stríði á forsendum valdbeitingar og yfirgangs eins og um hernaðarbandalag sé að ræða.“

Hæstv. ráðherra segir svo í lokin:

„Ég segi já.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Sér hún eftir þessu? Biðst hún afsökunar á þessu nú þegar við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Það er búið að sækja um fyrirvaralaust. Það er verið að breyta stofnunum landsins til þess að geta haldið áfram umsóknarferlinu og þetta kostar óhemjupeninga. Og hvað er með flokksræðið?