138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvorki í þingmennsku né í ráðherrastól á neinn neitt, við erum öll lýðræðislega kjörin á þing og síðan öxlum við ábyrgð. Ég er lánsamur og stoltur af því að axla þá ábyrgð að vera landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra eða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eftir því í hvaða röð við viljum segja þetta.

Þó að þessi ríkisstjórn sé alls ekki fullkomin og megi svo sannarlega taka sig á, þá tel ég engu að síður að hún sé sú besta sem við höfum haft um langt, langt árabil. (Gripið fram í: Nei, Jón.) Ég er hér með mynd af Viðeyjarstjórninni þegar Jón Baldvin Hannibalsson og Davíð Oddsson hlaupa í fangið hvor á öðrum og einkavæðingin hefst. Ég er með mynd af því þegar Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson mynduðu ríkisstjórn, foringjarnir. Viljum við endurtaka það? Nei.

Ég er líka með mynd af því þegar þáverandi formaður Samfylkingar og þáverandi formaður Sjálfstæðisflokks minntust við upphaf ríkisstjórnarferils síns og settu ríkisstjórnina í gang. Þó að ýmislegt megi að þessari ríkisstjórn finna og hún geti svo sannarlega gert betur þá er hún þegar ég horfi yfir þetta eina svið sú ríkisstjórn sem er sko lang-, lang-, langbest og mestar væntingar nú bundnar við. Ég hef enga trú á öðru en að hv. þingmaður beri í raun líka góðar væntingar til þessarar ríkisstjórnar og ég tala nú ekki um til mín sem ráðherra.