138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara út í það að spyrja hæstv. ráðherra um sannfæringu hans gagnvart Evrópusambandinu og hvernig hann vinnur dyggilega að því að koma Íslandi þangað inn. Ég ætla ekki að spyrja hann að því og hvernig hann ætlar að breyta heilu stofnununum til þess að geta sótt um, sem kostar óhemjufé. Hann ætlar að breyta íslenskri landbúnaðarstefnu til þess að geta sótt um og svo er hann á móti því að vera þarna inni. Þetta er dálítið skrýtin sannfæring.

Ég ætlaði að tala við hæstv. ráðherra um fé án hirðis, sem ég skrifaði grein um í Morgunblaðinu 1994, fyrir 16 árum. Í greininni varaði ég einmitt við því að fé sem enginn á er stýrt af einhverjum og ég nefndi þar lífeyrissjóðina, ríkissjóð og fleiri. Ég nefndi ekki sparisjóðina en hefði betur nefnt þá. Sá sem stýrir fénu er góður og gegn og hann kemur og fer. En svo kemur einn vondur sem stýrir fénu í eigin þágu. Það er hættan við fé án hirðis.

Þess vegna þurfa menn annaðhvort að hafa mjög sterkt eftirlitskerfi eða reyna að koma þessu fé án hirðis í hendur einhvers hirðis. Ég vil taka það fram að ég var á móti öllum breytingum á lögum um sparisjóðina, um hlutafjárvæðinguna, af því að ég vissi hvað menn voru að gera og afleiðingarnar sjáum við. Ég varaði einmitt við því sem gerðist 1994. Ég held að ég þurfi að birta þessa grein aftur, fá hana endurbirta, vegna þess að menn hafa leikið sér að því að misskilja hugtakið „fé án hirðis“.

Fé án hirðis er í hættu, það er málið. Það koma góðir menn og stýra því og þeir fara. Svo koma vondir menn einu sinni og þeir fara ekki, þeir sitja fastir á fénu og stýra því áfram eins lengi og þeir mögulega geta með alls konar annarleg sjónarmið í huga.