138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að í Framsóknarflokknum hefur oft verið margt ágætra manna, eins og t.d. Páll Pétursson sem er góður Húnvetningur og mikill (Gripið fram í.) félagshyggjumaður. Og eflaust má tína til fleiri eins og hv. þm. Birki Jón Jónsson, a.m.k. í sumum málum, (Gripið fram í.) þó ekki í ESB-málum. [Hlátur í þingsal.]

Hins vegar verð ég því miður að segja, til að halda þessu alveg til haga, að ég heyrði ræðu þáverandi hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar á aðalfundi Seðlabankans þar sem einmitt var sagt að það væri eitt brýnasta mál (Gripið fram í.) — hins vegar vissi ég jafnframt að í Framsóknarflokknum voru aðrir menn sem voru þessu andvígir. Þess vegna tókst sem betur fer að bjarga honum, en það var oft fyrir horn, það verður bara að segjast eins og er.

Ég vona að hinn nýi, endurreisti Framsóknarflokkur sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur verið að lýsa velkist ekkert í vafa um hvorum megin hann liggur, (Gripið fram í.) hvorki varðandi Íbúðalánasjóð og framtíð hans og félagslega fjármögnun íbúðalána í landinu þar sem allir eru jafnir, (BJJ: Enginn vafi.) né varðandi þessa Evrópusambandsumsókn. Ég vona að Framsóknarflokkurinn þjappi sér saman og komi sér þar saman um eina stefnu, þá farsælu og einu réttu. [Kliður í þingsal.]