138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:40]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég veit ekki um neinn Íslending sem kominn er til vits og ára sem finnst samfélag okkar réttlátt. Ég veit ekki um neinn sem finnst að hlutirnir séu í lagi á Íslandi, stjórnmálaflokkar starfi í þágu almennings og að allir hafi jöfn tækifæri. Það er ekki bara vitlaust gefið, íslenskt samfélag er nánast óbærilegt vegna spillingar í viðskiptalífi og stjórnmálum. Þessi tilfinning hefur bærst með okkur lengi en nú höfum við fengið staðfestingu á því hvað það er nákvæmlega sem er að.

Okkar er að vinna úr því, sjá til þess að þeir sem bera ábyrgð axli hana með raunverulegum hætti og tryggja að svona lagað gerist ekki aftur. Ég vona að skýrslan verði til þess að græða þjóðfélagið. Þjóðin er ýmist dofin eða reið en nær ekki að vinna úr því áfalli og þeirri sorg sem við urðum fyrir við hrunið. Ég vona að skýrslan og úrvinnsla hennar verði til þess að við komum okkur upp úr hjólförunum, vinnum af æðruleysi að því að breyta því sem við getum breytt og sætta okkur við það sem við getum ekki breytt. En ef hér á einhvern tímann að skapast sátt þarf ýmislegt að gerast fyrst.

Ríkið ábyrgðist allar innstæður í bönkum hérlendis en lánþegum er gert að greiða stökkbreytt lán upp í topp. Við hljótum að krefjast leiðréttingar á skuldum heimilanna. Ég vil benda á að tíu skuldugustu menn landsins skulda samtals 607 milljarða króna. Hvað ætlum við að gera til að fá þá peninga til baka? Af hverju er ekki búið að frysta eigur þessara manna? Eru þeir enn ósnertanlegir? Ef svo er, hvað getum við gert til að breyta því? Löggjafarvaldið er okkar þingmanna.

Og hvað með stjórnvöld? Það er föst þingvenja að ávarpa þingmenn með orðunum „háttvirtur“ og ráðherra með „hæstvirtur“. Á sú venja rétt á sér nú þegar sannleikurinn liggur fyrir? Verðskulda þingmenn sem hafa tekið þátt í vafasömum fjármálagerningum, skulda jafnvel 1.700 milljónir króna sem þeir eru ekki borgunarmenn fyrir, að vera ávarpaðir með þessum hætti? Frú forseti, ég treysti mér ekki til þess að nota þessi ávarpsorð um suma þingmenn og ráðherra og biðst hér með undan því að nota þau hér í dag.

Á bls. 124 í 1. bindi skýrslunnar viðurkennir Geir H. Haarde að hafa gert þau mistök við myndun ríkisstjórnar árið 2003 að samþykkja kröfur samstarfsflokksins um breytingar á íbúðalánakerfinu, sem eru að mati skýrsluhöfunda ein alvarlegustu mistök í hagstjórn á Íslandi síðustu árin.

Hann vissi betur en, eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Hann hafi metið það svo að væntanlegur skaði fyrir samfélagið væri ásættanlegur kostnaður við það að sitjandi flokkar héldu völdum.“

Ég endurtek:

„Hann hafi metið það svo að væntanlegur skaði fyrir samfélagið væri ásættanlegur kostnaður við það að sitjandi flokkar héldu völdum.“

Ég hef setið á þingi í tæpt ár. Á þeim tíma hef ég ótal sinnum orðið vitni að því að þingmenn og ráðherrar taki hagsmuni flokksins og valda fram yfir hagsmuni þjóðarinnar. Ég bið þá þingmenn sem þannig hugsa enn að víkja tafarlaust. Þeir sem taka sérhagsmuni fram yfir sameiginlegan hag allra Íslendinga verða að víkja undir eins. Þeirra tími er liðinn.

Frú forseti. Í gær var ég á opnum fundi um skýrsluna. Það var bæði magnað og ógnvekjandi að skynja þá reiði sem ólgar í samfélaginu. Í nótt hófst gos í Eyjafjallajökli. Heit kvikan spýttist úr iðrum jarðar upp í ísinn sem bráðnaði og þandist út þar til hann brast og rann með eyðileggjandi ógnarkrafti niður hlíðarnar. Ég vil leyfa mér að benda á að svipað á sér stað í þjóðarsálinni. Þjóðin hefur beðið, dofin og reið, eftir skýrslunni en nú er reiðin að ná yfirhöndinni og ég viðurkenni að ég óttast þá undiröldu sem ég skynja.

Mun almenningur sætta sig við sýndarafsögn Björgvins G. Sigurðssonar? Á hann að taka á sig syndir þess flokksræðis sem hann gekk á hönd? Mun almenningur sætta sig við áframhaldandi lausagöngu útrásarvíkinga? Mun almenningur sætta sig við að eiga að borga lán sem stökkbreyttust vegna vítaverðs gáleysis stjórnvalda og einbeitts brotavilja eigenda bankanna? Hvernig mun reiði almennings brjótast út í þetta sinn? Munu pottar og pönnur duga til að koma boðskapnum áleiðis eða verður gripið til annarra ráða?

Fyrir tæpu ári voru þingkosningar hér á landi. Aldrei hafa fleiri nýir þingmenn hafið störf samtímis. Hvar eru þeir nú og af hverju verja þeir flokksræðið? Hvar er hugrekkið? Hvar er sjálfstæðið? Af hverju verja þeir gamla kerfið, flokkana sína og leiðtogana?

Frú forseti. Ég vona að skýrslan hjálpi okkur að græða sár þjóðarinnar. Ég vil halda áfram að búa hér, ég vil að börnin mín verði Íslendingar. Við eigum að taka skýrsluna alvarlega og bregðast hratt og vel við boðskap hennar. Nú er tími afsagna og ákæra runninn upp. Við búum í réttarríki en réttarríkið verður að gera sér grein fyrir því að ef það grípur ekki í taumana strax mun almenningur gera það sjálfur.