138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið sem ég var býsna sáttur við, það var kannski eins og við var að búast frá hæstv. utanríkisráðherra. Það er gott að hann tók fram að hann hefði haft þessi varnaðarorð, það er sanngjarnt að halda því til haga að menn hafi þó reynt að vara við hlutum. Oft hef ég orðið var við svona takta hjá hæstv. utanríkisráðherra, svona takta sem benda til (Utanrrh.: Framsóknartakta.) — já, ég leyfi mér að hafa það eftir hæstv. utanríkisráðherra, framsóknartakta, enda ólst hann upp, að mér skilst, eitthvað framan af á framsóknarheimili. Það blundar í honum, kemur upp á yfirborðið annað slagið.

Ég hefði áhuga á að spyrja hæstv. ráðherra, af því að nú hefur töluvert verið rætt um mikilvægi dreifðs eignarhalds á bönkum, það var eiginlega upphafið að samskiptum okkar hér: Hvað finnst hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að ná dreifðu eignarhaldi á fjölmiðlum? Getur hæstv. ráðherra viðurkennt að það hafi verið stórkostleg mistök hjá Samfylkingunni að beita sér af hörku gegn fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma? Getur hann viðurkennt að það kunni að vera vegna þess að sú viðskiptablokk sem taldi helst að sér vegið með lögunum tengist hugsanlega einhverjum í Samfylkingunni, ekki þó hæstv. ráðherra sjálfum, og Samfylkingunni sem flokki?