138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að byrja á því að biðja hæstv. utanríkisráðherra afsökunar á því að ég gleymdi að hann væri búinn með andsvörin sín þannig að við verðum að klára samræður okkar síðar.

Hvað varðar andsvar hv. þm. Þórs Saaris er það nú svo, eins og Hreyfingin hefur bent á, að ekki hefur gefist mikill tími til að fara yfir innihald þessarar skýrslu. Við erum að tala um hana á mjög almennum nótum eftir meginniðurstöðum þannig að ég held að það væri æskilegt, áður en menn fara að dæma menn, að svigrúm gefist til þess að lesa skýrsluna í heild og að sjálfsögðu verða menn líka að fá tækifæri til þess að svara fyrir sig, þeir sem þar er fjallað um.

Þá komum við kannski að því sem ég var að tala um áðan, að við megum ekki sveiflast úr einum öfgunum í aðrar, og segja nú að gagnrýnin umræða um það sem þarna kemur fram sé ekki við hæfi. Þeir sem þarna eru bornir þungum sökum verða að fá tækifæri til að svara fyrir sig og við verðum líka að hafa í huga, til að mynda með þá ráðherra úr Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki sem fjallað er um og embættismenn einnig, að þeir hafa þurft að sæta mjög ítarlegri rannsókn, skoðun, sem stjórnmálamenn almennt hafa ekki þurft að fara í gegnum. Fyrir vikið hafa þeir birt ýmislegt sem aðrir stjórnmálamenn, sem einhvern tímann kunna að hafa brotið af sér hér á landi eða annars staðar, hafa ekki setið uppi með. Fyrir vikið verða viðkomandi að minnsta kosti að fá tækifæri til þess að standa fyrir máli sínu og svara, og að því búnu getum við dæmt um sekt manna eða sakleysi.