138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bréf ráðherra til forstjóra Sjúkratrygginga.

[10:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða í þinginu í þessari viku um rannsóknarskýrsluna og ég held að við séum öll sammála um það að við viljum læra af henni. Ég held að ekki sé ofsagt að eftirlitshlutverki Alþingis var stórlega ábótavant gagnvart framkvæmdarvaldinu og ég held að ekki sé ofsagt að stjórnsýslan og eftirlitsstofnanir vönduðu sig ekki nægjanlega mikið.

Spurningin er sú: Erum við að læra af þessu? Í síðustu viku sendi hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni einum forstöðumanni bréf og hótaði honum áminningu fyrir það að vanda sig og sýna samviskusemi.

Virðulegi forseti. Þetta snýst um tvennt. Þetta snýst annars vegar um hvernig framkvæmdarvaldið kemur fram við starfsmenn sína og trúnaðarmenn en ekki síður um hvernig framkvæmdarvaldið kemur fram við stofnanir þingsins, í þessu tilviki Ríkisendurskoðun, sem heyrir beint undir þingið og hefur gert í áratugi.

Ég vil því spyrja, virðulegi forseti, hæstv. heilbrigðisráðherra hvort ráðherrann hyggist halda áfram á þeirri braut eða hvort hæstv. ráðherra hafi ákveðið að sjá að sér og draga bréfið til baka og biðja viðkomandi forstöðumann afsökunar.