138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bréf ráðherra til forstjóra Sjúkratrygginga.

[10:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef í bréfi til ríkisendurskoðanda lýst því að það er alger misskilningur að tilefni bréfs míns til forstjóra Sjúkratryggingastofnunar hafi verið það að forstjórinn leitaði til Ríkisendurskoðunar. Í bréfi mínu til ríkisendurskoðanda, sem var dagsett 7. apríl sl., segir af þessu tilefni, með leyfi forseta:

„Það er langur vegur frá að heilbrigðisráðuneyti eða undirritaður ráðherra hafi nokkuð við það að athuga að stofnanir ráðuneytisins leiti eftir ráðgjöf frá ríkisendurskoðun eða að embættið afgreiði erindi sem því berast.

Í bréfi mínu til forstjóra SÍ dags. 31. mars sl. kemur skýrt fram að athugasemdirnar lúta ekki að framangreindu atriði heldur eins og segir orðrétt í bréfinu:

„Ég tel að þér hafi borið að leita fyrst til ráðuneytis eða ráðherra ef þú taldir fyrrgreindri reglugerð ábótavant að einhverju leyti. Með því að leita ekki beint til ráðuneytisins hafir þú brotið gegn góðum starfsháttum og hollustu- og trúnaðarskyldum þínum og hafi það haft í för með sér trúnaðarbrest milli þín og ráðherra.“

„Í bréfi þínu“, ávarpar undirrituð aftur ríkisendurskoðanda, „gætir því misskilnings hvað varðar tilefni bréfs míns til forstjórans.“

Hv. þingmaður spurði einnig um framhald þessa máls, (Gripið fram í.) og nú á ég 30 sekúndur eftir. Ég kýs að fá að svara því í seinna andsvari því að tími minn er búinn. (GÞÞ: Það er nógur tíminn.) Það er nógur tími, segir hv. þingmaður. Það er ástæðulaust að draga þetta bréf til baka. Ég vil taka fram að bréfið er sent samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, (Forseti hringir.) nr. 70/1996, — og einnig samkvæmt reglum fjármálaráðuneytisins sem finna má á vef ráðuneytisins (Forseti hringir.) um hvernig standa beri að áminningu. Þar er ákvæði um að tilkynna ber um fyrirhugaða áminningu og veita andmælafrest og sá andmælafrestur (Forseti hringir.) rann út sl. þriðjudagskvöld. Málinu er hins vegar lokið.