138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

vandi ungs barnafólks.

[10:52]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Skömmu fyrir páskafrí hóf ég utandagskrárumræðu um vanda ungs barnafólks. Ég benti á að Færeyingar og Finnar misstu stóran hluta ungs fólks úr landi í kreppunum sem þar geisuðu og í Finnlandi er nú talað um „týndu kynslóðina“. Eru allir sammála um að stærstu mistökin hafi verið að grípa ekki til aðgerða til að sporna við þessari þróun.

Það sem olli mér mestu vonbrigðum í þeirri umræðu voru viðbrögð hæstv. félagsmálaráðherra. Eins og ég benti á þar og geri aftur nú gat ég ekki betur séð en að honum þætti vandinn léttvægur. Hann taldi upp það smáræði sem ríkisstjórnin hefur gert fyrir þetta fólk og hóf svo umræður um kosti evrunnar. Í gær var gerð grein fyrir úttekt Seðlabankans þar sem staðreyndirnar tala sínu máli. Um 40% ungs barnafólks eru á mörkum þess að ná endum saman. Sá hópur er sérstaklega tiltekinn, enda mælist vandinn þar mestur af öllum þjóðfélagshópum. 24 þúsund heimili eiga í verulegum vanda. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra Árna Pál Árnason: Er einhver von til þess að félagsmálaráðuneytið taki til hendinni og bregðist við vandanum? Er einhver vonarglæta til að ríkisstjórnin setji af stað aðgerðaáætlun til að koma í veg fyrir að við gerum sömu mistök og nágrannar okkar og frændur, Finnar og Færeyingar? Er einhver von til að hæstv. félagsmálaráðherra sjái ljósið, átti sig á því að skuldaleiðrétting gagnvart þessum hópi er það sem mundi koma honum langbest?