138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

lífeyrisréttindi.

[11:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður verður auðvitað að hafa forsögu þessara mála í huga. Það er ekki hægt að horfa fram hjá kjarasamhengi lífeyrisréttindanna eins og það hefur verið í gegnum tíðina og það er almennt viðurkennt og ég hygg að því sé ekki mótmælt að það var hluti af kjaraumhverfi opinberra starfsmanna á löngu árabili að þeir nutu tiltekinna lífeyrisréttinda og starfsöryggis svo þeir völdu þá leið í stað kannski kröfu um meiri kauphækkanir og almennt bjó opinberi vinnumarkaðurinn að talið var við lægri laun á móti þessum réttindum.

Það má líka hafa forsögu málsins í huga og spyrja sig að því: Hvers vegna var ekki tekið á þessum vandamálum og gerður upp hallinn á opinbera lífeyrissjóðakerfinu í öllu góðærinu þegar menn höfðu góðar aðstæður til þess á löngu árabili að jafna þennan mun en það var ekki gert? Núna er ekki eins hægt um vik eða hvað, hv. þingmaður? Hvaðan á að taka milljarðana eða hundruð milljarðanna til að rétta af B-deildlina? Á að taka þá af 100 milljarða halla ríkissjóðs?