138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

viðbrögð við eldgosi í Eyjafjallajökli.

[11:14]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki ætlað að ræða hér í dag alvöru eldgossins í Eyjafjallajökli. Þar er komin upp staða sem er ekki hægt að víkjast undan að vekja athygli á. Þess vegna vek ég máls á því hér í háttvirtu Alþingi.

Eldgos eru þess eðlis að allra veðra er von og það verður að bregðast við á augabragði. Það er auðsætt, virðulegi forseti, að setja verður strax á stofn mannvirkjastjórn skipaða að lágmarki vegamálastjóra, landgræðslustjóra og sveitarstjóra Rangárþings eystra. Þar eru í hættu stór mannvirki, heilar sveitir og þegar hafa orðið skemmdir á jörðum, matarkistan Landeyjar er í stórhættu. Mikill tækjafloti er á svæðinu sem gæti brugðist við varðandi styrkingu varnargarða og fleira. Þess vegna gengur það ekki (Forseti hringir.) að ganga ekki til verka strax í þeim efnum. Þess vegna óska ég eftir því að ríkisstjórnin, ég geri það fyrir hönd Suðurkjördæmis, bregðist við og setji þessa (Forseti hringir.) stjórn nú þegar á laggirnar.