138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

viðbrögð við eldgosi í Eyjafjallajökli.

[11:17]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það vill nú svo til að í gærmorgun var það að frumkvæði verktakafyrirtækisins Suðurverks að farið var í að bjarga brúnni yfir Markarfljót, sem hafði að eigin frumkvæði samband við Vegagerðina sem brást vel við og tækjakostur Suðurverks rauf þjóðveg 1, þannig að hundruð milljóna og jafnvel milljarða mannvirki var bjargað. Þetta er liður í því sem þarf að bregðast við. Það eru varnargarðar á öllu þessu svæði, í Fljótshlíðinni, undir Fjöllunum og í Landeyjum. Það eru víða veikleikar, það blikka rauð ljós á mörgum stöðum. Þess vegna verður að setja úttekt í gang nú þegar. Þekkingin liggur hjá Landgræðslu og Vegagerð og hjá sveitarstjórn Rangárþings eystra. Þess vegna þýðir ekki að bíða eftir því hvað skeður. Það þarf að bregðast strax við og fyrirbyggja (Forseti hringir.) frekara tjón.