138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

viðbrögð við eldgosi í Eyjafjallajökli.

[11:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er nú ástæðulaust að deila um hver hafði frumkvæði að hverju. Ég var í sambandi við vegamálastjóra í morgun og hann upplýsti mig um það að þeir hefðu óskað eftir því að tæki yrðu til staðar beggja vegna fljótsins til að hægt væri að bregðast við. Og það var gert. Það er alveg hárrétt sem hér kom fram að verktakinn á þakkir og heiður skilið fyrir framlag sitt og ekki síst gröfustjórinn sem vann afar vasklega. Það vildi svo til að ég var vitni að því og áhorfandi að því úr fárra metra fjarlægð. Þar var virkilega vel að verki staðið.

Það er líka ánægjulegt að 80 ára gamlir varnargarðar sem voru byggðir með hestakerrum og hjólbörum stóðust álagið og skiluðu hlutverki sínu. Það er ástæða til að ætla að mestu flóðin og líkurnar á stærstu gusunum séu afstaðnar, þ.e. það eru frekar líkur á því að minni flóð verði sem fylgja í framhaldinu eftir því sem ísinn til að bræða minnkar. Mestu áhyggjuefnin í framhaldinu eru öskufallið, tvímælalaust, og hvar það kemur niður og hvaða afleiðingar það hefur á gróðurland, búskap, flugsamgöngur og annað í þeim dúr.

Ég tek að sjálfsögðu undir það með hv. þingmanni að ástæða er til að gera allt sem hægt er að gera (Forseti hringir.) við þessar aðstæður.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til þess að ræða fundarstjórn forseta ef þeir kveðja sér hljóðs um fundarstjórn forseta.)