138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[11:35]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem aftur upp í umræðu um rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem ég náði ekki alveg að ljúka öllum efnisatriðum í fyrri ræðu minni. Þar ætlaði ég aðallega að ræða um skort á stefnumótun og stjórnfestu í stjórnkerfi Íslands og hinum pólitíska kúltúr á Íslandi. Ef niðurstöður rannsóknarskýrslunnar kenna okkur eitthvað þá er það að gott er að hafa markmið og vinna eftir stefnu sem er skýr og öllum kunn og bæði almenningur, embættismenn og stjórnmálamenn geta tileinkað sér og unnið eftir. Á Íslandi var aldrei til nein stefnumótun um fjármálamarkaði. Það voru í raun ekki annað en yfirlýsingar einstakra ráðherra og stjórnmálamanna um að gera Ísland að einhvers konar alþjóðlegri fjármálamiðstöð en hvernig það ætti að gerast og hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir íslenskt samfélag lá aldrei fyrir að því ég best veit.

Stjórnfesta, sem á enskri tungu kallast „good governance“, er nokkuð sem íslenskt stjórnkerfi og stjórnmálamenn hafa ekki náð að tileinka sér heldur. Þar erum við því miður áratugum á eftir grannþjóðum okkar. Í raun eru vinnubrögð, sem mörg og líklega vel flest fyrirtæki á einkamarkaði hafa tileinkað sér fyrir löngu, nýnæmi í íslensku stjórnmálalífi og stjórnkerfi. Þessu þarf að breyta. Það þarf að taka upp formlegri vinnubrögð, hvort sem er við ríkisstjórnarborðið eða annars staðar, án þess að ég fari að tvítaka eða endurtaka það sem áður hefur verið sagt um það mál. Stefnumótunarvinna er nefnilega mikilvæg. Menn gera stundum grín að miklum fundahöldum og bera næstum því óttablandna virðingu fyrir þeim sem eru fljótir að taka ákvarðanir og óhræddir við það. Það hefur löngum þótt karlmannlegt og gott á Íslandi, burt séð frá því hvaða afleiðingar slík ákvarðanataka hefur. Nú held ég að það sé komið gott tækifæri til að taka upp eilítið varkárri og kannski kvenlegri vinnubrögð þar sem unnið er saman í hópum, menn komast að sameiginlegri niðurstöðu um markmið og leiðir og vinna eftir því. Það eru í raun þau lýðræðislegu og opnu vinnubrögð sem við þurfum að tíðka og tileinka okkur.

Hæstv. forseti. Þetta eru auðvitað ekkert annað en almennar hugleiðingar um þessa hlið mála. Hér þarf að vinna mikið stefnumótunarstarf. Sem betur fer er það farið af stað undir forustu hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og nefnda sem hún hefur sett á fót og eru m.a. að endurrýna og skoða og koma með tillögur um uppbyggingu starfsemi lagaumhverfis Stjórnarráðsins og stjórnhætti almennt. Ég er ein þeirra sem hafa miklar væntingar til þeirrar niðurstöðu. Ég tel að slík vinna muni færa okkur fram á veginn og hún sé lykilatriði í því að búa til hið nýja Ísland sem svo oft er talað um.

Að síðustu, herra forseti, vil ég fá nýta þetta tækifæri til þess að svara því sem fram kom við umræðuna í gær eða fyrradag hvað varðar stuðning Samfylkingarinnar við 90% lánin — árið 2003 var það. Ég rifjaði upp hvernig þetta gerðist. Þáverandi krónprins Framsóknarflokksins, Árni Magnússon sem gerður hafði verið að félagsmálaráðherra minnir mig, tilkynnti um 90% lánin reyndar áður en hann varð ráðherra og það var kosningamál Framsóknar árið 2003. Með því að gera það með þessum hætti gáfu stjórnvöld náttúrlega bönkunum færi á að undirbúa sig. Það var einn þáttur málsins. Þegar kom að því að ræða þetta í þinginu snerist málið um 90% lán fyrir Íbúðalánasjóð fyrir fyrstu kaup. Málið snerist í raun um að halda Íbúðalánasjóði. Í því studdum við Framsóknarflokkinn af því að Sjálfstæðisflokkurinn í þeirri ríkisstjórn vildi leggja hann niður og senda öll íbúðalánin inn í bankana. Við getum nú ímyndað okkur hvernig það hefði farið. Það skýrir afstöðu Samfylkingarinnar á þeirri stundu. Þetta er afar (Forseti hringir.) stutt skýring, herra forseti, en ég vildi koma henni á framfæri.