138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[11:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Það er í rauninni fjölmargt sem mig langar til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um hvað þetta varðar, t.d. hvernig hann lítur á stöðu Alþingis í þessu. Alþingi fær mikinn áfellisdóm í skýrslunni. Ég ætla að halda mig við þennan punkt, samráð formanna stjórnarflokka. Það er öllum augljóst sem glugga í skýrsluna, lesa hana, að margar ákvarðanir eru reknar til þess batterís, sem er einhvers konar samráð formanna stjórnarflokka í nokkrum ríkisstjórnum. Þar eru ekki haldnar fundargerðir en þar eru jafnvel stærstu og örlagaríkustu ákvarðanirnar teknar, jafnvel oft án samráðs við fagráðherra, eins og rakið er í skýrslunni.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra og formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvort nú hafi orðið breyting á, t.d. hvort nú séu haldnar fundargerðir þegar formenn stjórnarflokkanna núverandi funda. (Forseti hringir.)