138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að mörgu að hyggja í þessum efnum og að mörgu leyti við gjörbreyttan veruleika að fást. Þannig er núna t.d. ljóst að eitt af viðamestu og vandasömustu verkefnum ríkisins á komandi árum er skuldastýringarmál. Menn höfðu ekki stórar áhyggjur af því þegar svo leit út, a.m.k. á yfirborðinu, að ríkissjóður væri því sem næst skuldlaus. Það má segja að sáralítil vinna hafi verið í gangi. Seðlabankinn sá um það litla sem gert var varðandi útgáfu skuldabréfaflokka, lánamál og annað í þeim dúr. Það er reyndar gert á grundvelli samnings sem gerður var fyrir allmörgum árum og Seðlabankanum var falið það verkefni í umboði fjármálaráðuneytisins. Við höfum þegar unnið mikla stefnumótunarvinnu að þessu leyti. Það er tilbúin skuldastýringarstefna og skuldastýringaráætlun fyrir ríkið sem var unnin undir forustu fjármálaráðuneytisins með aðkeyptu erlendu ráðgjafarfyrirtæki og sömuleiðis á grundvelli sérfræðiaðstoðar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er verið að taka á þeim málum, m.a. til að tryggja að sambærilegt geti ekki endurtekið sig en ekki síður til að fara með hinn gríðarlega skuldastabba sem við stöndum núna frammi fyrir. Það er ærið verkefni að vinna að því.

Ég treysti því að sjálfsögðu að þær stofnanir sem í hlut eiga, hver og ein og allar saman, fari vandlega yfir sinn hlut í skýrslunni. Það verður að ætla þeim það. Það er ágætt að Alþingi veiti aðhald í þeim efnum, að Alþingi þrýsti á um það og fylgist með því að allir taki þetta alvarlega sem að þeim snýr.

Og ég tek undir það að bæði Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið þurfi, þrátt fyrir mannabreytingar sem þar hafa orðið og ýmsa aðra hluti, að fara mjög rækilega í gegnum starfsemi sína í ljósi ábendinga sem koma fram í skýrslunni en það þurfum við í sjálfu sér öll að gera sem og Alþingi.

Eitt að lokum um þetta, maður velti auðvitað fyrir sér og það kemur reyndar fram í skýrslunni hvaða skaðlegu afleiðingar það hafði að Þjóðhagsstofnun var lögð niður á sínum tíma. Í stað þess að byggja á nýjum vettvangi upp einhverja lágmarksgetu á þessu sviði, t.d. með lítilli efnahagsstofnun undir Alþingi, var ekkert gert. (Forseti hringir.)