138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tala í annað sinn um rannsóknarskýrslu Alþingis. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir það hvað Alþingi og löggjafarvaldið er óvarið gagnvart utanaðkomandi áhrifum og ætla hér að fara yfir fleiri punkta varðandi þau málefni því að eins og flestir vita uxu bankarnir á grundvelli Evrópusambandsreglna.

Í 15. kafla skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að nefndin hafi sérstaklega tekið til athugunar hvernig starfsheimildir lánastofnana varðandi sjö tiltekin atriði hefðu breyst í kjölfar aðildar Íslands að EES-samningnum. Ég minni enn á ný á að EES-samningurinn var löggiltur í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks því að löngun Samfylkingar og krata er mikil til að ganga í Evrópusambandið. Þar er upphafið að því hruni sem við stöndum frammi fyrir.

Í skýrslunni kemur fram að fyrsta breytingin hafi falist í auknum heimildum lánastofnana til að fjárfesta í ótengdum atvinnurekstri. Önnur heimildin fólst í auknum heimildum til lánafyrirgreiðslu til stjórnenda, þriðja heimildin í auknum heimildum til að fjárfesta í fasteignum, félögum og félögum um fasteignir, sú fjórða í auknum heimildum til að veita lán til kaupa á eigin hlutum, sú fimmta í minni kröfum um rekstrarfyrirkomulag verðbréfafyrirtækja, sú sjötta í auknum heimildum til að reka vátryggingafélög og sú sjöunda í auknum heimildum til að fara með eignarhlut í öðrum lánastofnunum.

Virðulegi forseti. Þarna liggur þetta fyrir í nokkrum línum hvað gerðist hér á landi, hvers vegna bankarnir féllu, hvers vegna þetta þjóðfélag fór á hausinn. Þarna er þetta í sjö liðum samkvæmt Evrópureglum sem voru lögleiddar blindandi í gegnum Alþingi. Þarna stendur þetta og þarna stendur þetta í skýrslunni, ég hvet fólk til að lesa 15. kafla. Taumlaus eftirgjöf á fjármálasviðinu, sem varð í framhaldi af því að EES-samningurinn var lögfestur hér á landi, var ástæða þess að íslenskir bankamenn nýttu upp í topp þau tækifæri sem lögin veittu. Það segir síðan í skýrslunni, með leyfi forseta, og nú bið ég þingmenn að hlusta vel:

„Í öllum þessum tilvikum voru reglurnar rýmkaðar og athafnaleysi lánastofnana aukið verulega. Lágmarkskröfur tilskipana Evrópusambandsins um starfsemi lánastofnana fjölluðu ekki beinlínis um þessar auknu starfsheimildir. Íslandi var því ekki skylt vegna EES-samningsins að auka starfsheimildir innlendra lánastofnana á þennan hátt heldur var af samkeppnisástæðum talið nauðsynlegt að löggjöfin yrði sambærileg um þessi atriði og í helstu nágrannalöndunum.“

Virðulegi forseti. Að mínu mati brást löggjafinn þarna algerlega því að Íslendingum var ekki skylt að ganga fram með þessum hætti. Löggjafinn gat dregið úr þessu og ákveðið að hafa þetta ekki eins opið og það var.

Alþingi Íslendinga samþykkti á þessum tíma lög samkvæmt þessum ýtrustu reglum. Ég velti því fyrir mér hvers vegna Alþingi sótti sér ekki ýtrustu ráðgjöf varðandi innleiðingu þessara tilskipana og þessara reglugerða sem Evrópusambandið fól okkur að innleiða. Ekki er búið að styrkja lagasvið Alþingis enn þá. Þetta gerist á árinu 1993 og ekkert hefur verið unnið að því að styrkja lagasetningarvaldið, það er hvorki búið að koma á lagaráði né lagaskrifstofu. Það starfar ekki prófessor í lögum við Alþingi. Þetta er svo bagalegt og þessu verðum við að breyta.

Löggjafinn er einn hluti þrígreiningar ríkisvaldsins og löggjafinn skal starfa óháð framkvæmdarvaldinu og dómstólunum. Við vitum að þetta stendur í stjórnarskránni en af hverju er því þá ekki framfylgt? Það er grafalvarlegt þegar löggjafinn lætur með þessu móti undan þrýstingi jafnvel utan úr samfélaginu. Talsmaður Viðskiptaráðs lét hafa það eftir sér á sínum tíma fyrir bankahrun að Alþingi hefði í 90% tilvika farið að tillögum ráðsins í lagasetningu. Þetta er eins og maður sé staddur í miðri martröð, virðulegi forseti. Það viðhorf að hægt sé að panta lagasetningu er stórhættulegt og ég hef kallað það kranalagasetningu. Ég hef því lagt fram frumvarp um lagaskrifstofu hér á þingi og vona ég að það fái framgöngu og verði fljótlega að lögum.

Mig langar að lokum að segja þetta: Rænir þú banka um hábjartan dag og hótar ofbeldi er þér stungið í gæsluvarðhald þar til dómur fellur. Tæmir þú banka innan frá og kemur heilli þjóð á hausinn er þér hampað og þú flytur lögheimilið til útlanda. Við getum haft áhrif á framtíðina. Stöndum saman að því að byggja mannvænlegt samfélag.