138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar í fyrsta lagi að þakka fyrir þá skýrslu sem er hér til umræðu. Hún er afar vönduð, hún er ítarleg og í mínum huga er hún þeim til sóma sem hana rituðu, enda veit ég af fyrri kynnum mínum af hluta nefndarmanna að þar fara afburðamenn og þegar þeir segjast hafa unnið sleitulaust myrkranna á milli að gerð hennar trúi ég því og veit að það er rétt.

Ég er líka ánægður með að nú sé komin niðurstaða í fjölmörg þrætuefni okkar alþingismanna á undanförnum árum og í rauninni þarf ekki að ræða þau mál neitt sérstaklega frekar. Ég er líka ánægður með að nú sé komin skýr heildarmynd af öllu því sem orsakaði hrunið. Eftir að hafa fylgst með hruninu gegnum störf mín á Alþingi þóttist maður vita að margt af því sem í skýrslunni er væri orsakavaldurinn en ég segi fyrir mína parta að þá var oft erfitt að tengja hlutina saman. Nú sér maður alla þræði, nú sér maður mistökin, sofandaháttinn, sinnuleysið, getuleysið sem þingmenn, ráðherrar, stjórnsýslan, forstöðumenn stofnana, eftirlitsstofnanir, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn sýndu af sér. Það er sorglegt að svona skyldi málum hafa verið háttað en það er staðreynd.

Við sem nú erum tekin við, við sem nú eigum sæti á Alþingi ætlum ekki bara að læra af mistökunum, við ætlum að breyta hlutunum og það er niðurstaðan að mínu mati úr þessari skýrslu. Það verður að breyta hlutunum, það verður að breyta verklagi á Alþingi, efla Alþingi, efla eftirlitshlutverk Alþingis og það verður að veita Alþingi og lýðræðislega kjörnum fulltrúum þessa lands það vægi sem þeir eiga að hafa í umræðunni. Alþingi hefur ákvarðanatökuvaldið, ekki framkvæmdarvaldið. Framkvæmdarvaldið er ekki kosið til þess að taka ákvarðanir fyrir landsmenn. Strax eftir hrun benti ég á að vald Alþingis væri af skornum skammti, það væri í rauninni svo takmarkað að það væri sáralítið sem alþingismenn gætu gert til að bregðast við og sporna við vandanum. Þá stigu á stokk tvær þingkonur úr röðum sjálfstæðismanna sem lýstu því yfir að þeim liði eins og þær væru afgreiðslukonur á kassa. Þær væru hér í rauninni bara til að stimpla ákvarðanir sem framkvæmdarvaldið tæki. Ég held að þar liggi rót vandans; ef tveir aðilar, tveir ríkisstjórnarflokkar stýra landinu hafa þeir allt of mikið vald í sínum höndum. Ég held að það sé stór hluti af þeim vanda sem við horfum upp á í dag.

Hefur eitthvað breyst? Hefur eitthvað breyst á Alþingi frá því að bankahrunið átti sér stað? Nei, því miður hefur sáralítið breyst að mínu mati. Ég hef stundum sagt að ég geti ekki ímyndað mér að það sé hægt, og hafi verið gert, að halda á sumum málum eins og gert hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Halldór og Davíð, Ingibjörg og Geir, Jóhanna og Steingrímur. Við horfðum upp á það í haust að einn þingmaður sagði af sér ráðherraembætti vegna þess að hann taldi sig ekki geta þolað að það ætti að beygja hann til að sveigja frá skoðunum sínum. Stór hluti Vinstri grænna er ósáttur við þá meðferð sem hér hefur verið viðhaldið, sérstaklega varðandi Icesave. Þingmál koma seint inn á Alþingi, þau eru afgreidd með hraði og þingmenn bregðast við. Þingmenn verða reiðir, þeir verða óánægðir, þeir lýsa því yfir statt og stöðugt að þeir fái ekki tíma, þeir hafi ekki forsendur til að vega og meta risastór mál sem þeir eiga að taka ákvörðun um hvort verði að lögum eða ekki. Þarna komum við einmitt að rótum vandans, að hér ríkir flokksræði en ekki þingræði. Kannski var hluti vandans að áður fyrr voru einstakir þingmenn of huglausir til að segja: Nei, ég læt ekki sveigja mig til að fylgja flokkslínunni í þessu máli sem ég hef barist gegn og er á móti í eðli mínu. Ef þingræðið væri raunverulega virt stæðum við ekki frammi fyrir þessu Icesave-vandamáli. Mér er líka til efs að þá væri þjóðin búin að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég gat ekki betur heyrt á orðum þeirra þingmanna sem tóku þátt í þeirri umræðu en að þeir væru í eðli sínu á móti þeirri ákvörðun. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lýst því yfir margoft að hún sé á móti aðild að Evrópusambandinu. Engu að síður erum við að banka á dyrnar.

Kannski liggur vandinn hjá formönnum flokkanna, sumum hverjum, sem hafa barist fyrir því lengi vel að komast ríkisstjórn og hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa mistekist trekk í trekk svo áratugum skiptir. Kannski gáfu menn eftir hugsjónir sínar til að ná völdum og til að halda í völdin. Hvernig getum við breytt þessu? Við getum breytt þessu með því að framkvæmdarvaldið, formenn stjórnmálaflokka, verði að gefa eftir hluta af valdinu og ef það gerist held ég að Alþingi muni njóta virðingar á ný.

Páll Skúlason, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, hefur haldið erindi um stjórnmál og hann bendir á að svo virðist sem Alþingi geti bara fjallað um eitt mál í einu, einnig að umræðan verði oft ósanngjörn og ómálefnaleg. Þá komum við að því að fjölmiðlar landsins eru líka hluti af vandamálinu, þeir eru að selja sína vöru sem eru blöðin og þær greinar sem þar birtast og því miður virðist sem frjálshyggjuhugsunin hafi gert það að verkum að það ómálefnalegasta komist til skila. Síðan eru litlar greinar þar sem dregið er dár að alþingismönnum og gert lítið úr þeim. Þetta hjálpar ekki umræðunni, þetta eykur ekki virðingu Alþingis, þvert á móti. Hér fara oft fram málefnalegar umræður um mikilvæg mál og maður sér þess hvergi stað í fjölmiðlum landsins jafnvel þó að um sé að ræða gríðarlega mikilvæg (Forseti hringir.) og góð mál.

Ég mun halda áfram að fjalla um skýrsluna í næstu ræðu minni. Tíminn er naumur, af of skornum (Forseti hringir.) skammti, og kannski er of stutt síðan skýrslan kom út en það er gott að geta talað aðeins út um þessi mál.