138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mikilvæga efni að svo miklu leyti sem ég hef átt þess kost að fylgjast með því. Ég hef síðustu daga þurft að vera við skyldustörf sem forseti Norðurlandaráðs. Því verð ég að hafa þann fyrirvara á innleggi mínu hér í umræðuna að ég hef ekki átt þess kost að fylgjast með henni allri, og eins hinn fyrirvarann að auðvitað erum við öll með innlegg um efnið án þess að hafa enn átt þess kost að kynna okkur til hlítar efni skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Fyrst og fremst höfum við getað farið yfir aðalatriðin í niðurstöðum nefndarinnar.

Mér virðist skýrslan mæta þeim væntingum og jafnvel taka fram þeim væntingum sem til starfs nefndarinnar mátti hafa, að starf hennar sé vandað og yfirgripsmikið, niðurstaðan um öll aðalatriði skýr og afdráttarlaus og þannig unnið að mörgu í vinnu nefndarinnar að til hreinnar fyrirmyndar hefur verið. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli til að sátt geti tekist um niðurstöðurnar í meginatriðum og allt það starf sem við eigum fram undan. Það er auðvitað gríðarlega mikið starf.

Á þeim stutta tíma sem við höfum hér til umræðna vil ég fyrst og fremst draga fram örfá af þeim mörgu atriðum sem ég tel að verkefni okkar hér á Alþingi Íslendinga sé að takast á við og bæta úr í menningu okkar. Það eru svo sannarlega þær skyldur sem upp á okkur standa. Við þurfum að gæta þess í þessu verkefni að forðast að fara niður í skotgrafir flokkastjórnmála og reyna að ná sameiginlegum skilningi um meginúrbætur, lykilþætti sem óhjákvæmilegt er að taka á til þess að forða því að Ísland verði aftur fyrir áfalli eins og þessu.

Þá eru auðvitað mýmörg úrbótaefni eins og við öll þekkjum en það fyrsta sem ég vil gera að umfjöllunarefni er valddreifing, aðgreining valdþáttanna og efling hvers og eins þeirra. Mér virðist algjörlega augljóst að í stjórnmálamenningu okkar hafi það gerst jafnt og þétt á mörgum árum og áratugum að mörk valdþátta hafi horfið smátt og smátt. Hér safnaðist vald saman á örfáum stöðum og fyrir vikið misstum við allt aðhald og allt eftirlit sem þarf að vera til staðar í samfélagi þannig að gætt sé að réttum leikreglum og það skapist ekki mein í samfélaginu sem leiða á endanum til þess að það hrynur.

Í því efni er auðvitað algjörlega augljóst að við þurfum að taka sjálfa grundvallarlöggjöfina, stjórnarskrána, til endurskoðunar og taka m.a. á henni með þetta atriði í huga. Eitt af því sem sérstaklega heyrir til friðar okkar alþingismanna í þessum efnum er sú staðreynd að við höfum á umliðnum árum og áratugum látið framkvæmdarvaldinu haldast uppi óhófleg völd og áhrif á Alþingi. Það er engin leið að draga aðra ályktun en þá að hér þurfi þingið sannarlega að efla sjálfstæði sitt gagnvart framkvæmdarvaldinu og sömuleiðis eftirlitshlutverkið. Þá þurfum við ekki aðeins að líta til þess að framkvæmdarvaldið hafði náð svo sterkum tökum á löggjafarvaldinu sem raun ber vitni, heldur er óhjákvæmilegt að líta líka til þess að framkvæmdarvaldið var farið að seilast inn í sjálft dómsvaldið með skipan dómara og þannig seilast til valda líka í þeim valdþætti. Það er algjörlega nauðsynlegt að við hér í þinginu setjum skýrar leikreglur sem tryggi sjálfstæði dómsvaldsins og komi í veg fyrir grófa pólitíska íhlutun af því eins og hætta er á að óbreyttum lögum.

Þar höfum við nefnt nokkra af valdþáttunum en við verðum líka að hafa í huga þá sterku þöggun og það mikla vald sem framkvæmdarvaldið tók sér með embættismannakerfi landsins með því að hlutast þar ítrekað gróflega til um bæði stöðuveitingar og skipan mála, jafnvel með því að leggja niður opinberar stofnanir sem ekki voru hinu pólitíska valdi þóknanlegar. Á þeim vettvangi verðum við líka að setja leikreglur sem verja embættismenn fyrir slíku og koma í veg fyrir að stjórnmálin geti með óeðlilegum og grófum hætti í rauninni kúgað embættismannakerfið til að dansa með.

Þessi samansúrrun á valdinu teygði sig á endanum fyrst yfir í fjármálakerfið og völdum í fjármálakerfinu var á hinum pólitíska vettvangi svo gott sem úthlutað þar. Síðan fengu fjármálastofnanirnar, sem auðvitað gegndu lykilhlutverki sem ríkisbankar á sínum tíma, að breytast í fjárfestingarbanka og fengu við það algjöra lykilstöðu í viðskiptalífinu og síðan sömuleiðis í fjölmiðlunum.

Ég held að ekki sé hægt að segja að þessi mynd sé á ábyrgð eins manns eða eins flokks með nokkrum hætti en við hljótum að þurfa að fjalla um hana sem þróun stjórnmálamenningar okkar í okkar unga landi. Við eigum að muna að lýðveldið okkar er ungt. Hér er um að ræða ávexti af óheillavænlegri þróun stjórnmálamenningar okkar á löngum tíma og við þurfum með róttækum hætti að fara í grundvallaratriðin í sjálfri stjórnskipan okkar og í aðgreiningu valdþáttanna í þeim leikreglum sem gilda eiga bæði í stjórnkerfinu og á markaðnum til þess að dreifa völdunum, vegna þess að staðreyndin er að vald spillir. Það er eðli mannanna. Ef við gætum þess ekki að dreifa valdinu í samfélaginu hættum við á meiri og meiri spillingu. Það er þess vegna lykilatriði til að berjast gegn og varna spillingu í einu samfélagi að löggjafarvald þess komi leikreglum þannig fyrir að valdinu í samfélaginu sé dreift. Það held ég að sé eitt af þessum fjöldamörgu verkefnum sem við þurfum að sinna. Þar er líka aðgreining valdþáttanna og sömuleiðis að efla fjórða valdið, fjölmiðlana, sem sjálfstæðan aðhaldsaðila með hinum valdþáttunum þremur. Ég held að það sé hverjum manni augljóst að við þurfum að efla líka, ekki aðeins aðgreina, hvern og einn af þessum valdþáttum vegna þess að staðreyndin er sú að í störfum okkar þurfum við mennirnir aðhalds með og aðhaldið fáum við frá hinum valdþáttunum.