138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann fór ítarlega í gegnum ýmislegt sem ég get alveg fallist á. Hann talaði samt aðallega í þátíð. Hann talaði ekki í nútíð og hann talaði ekki um það sem er að gerast núna. Hann talaði ekki um það hvernig skattalögin voru keyrð í gegnum nefnd hans í vetur með afskaplega óbilgjörnum og ólýðræðislegum hætti, ekki var haft samband við nokkurn mann, ekki samráð við neinn. Verulega miklar breytingar voru gerðar á skattalögum með gífurlegum hraða. Hann talaði ekki um það sem gerðist með Icesave-málið, hvernig það var samþykkt rétt fyrir jól. Það var nefnilega samþykkt og hv. þingmaður stóð að því. Ég hef ekki heyrt neina iðrun á því að hafa samþykkt það ótrúlega frumvarp sem, guði sé lof, forseti vor neitaði að skrifa undir.

Spurningin er: Hefur eitthvað breyst og ætla menn að breyta einhverju? Nú erum við t.d. að ræða mörg mál í dag, ég held að þau séu fimm, sem voru öll tekin inn með afbrigðum. Við fengum ekki einu sinni tíma til að lesa þau. Á sama tíma stend ég hérna í umræðu um skýrsluna miklu og ég stend í því að lesa þessa skýrslu, ég stend í því að ræða hana og á sama tíma á ég að vera búinn að lesa ein fimm frumvörp frá hæstv. fjármálaráðherra af því að ég er í þessari nefnd. Eru þetta breytt vinnubrögð? Er þetta aðhald sem stjórnarandstaðan á að veita stjórnarmeirihlutanum og valdþættirnir hver öðrum?