138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð þó að andmæla því að ég hafi talað í þátíð. Ég vil þvert á móti leggja áherslu á að þetta eru þau verkefni sem við eigum fyrir höndum, þær úrbætur sem við þurfum að gera. Einmitt í að lýsa þeim er ég auðvitað að lýsa því að nútíðin, þær aðstæður sem við nú búum við, séu ekki fullnægjandi að þessu leyti. Þess vegna þurfum við að taka á stjórnarskránni, þess vegna þurfum við að efla sjálfstæði þingsins og þá á ég við að við þurfum að efla það frá því sem það nú er. Ég held að það sé mikilvægt að það sé ekki bara sagt í stjórnarandstöðunni, ég tel líka mikilvægt að það sé sagt af stjórnarliðum. Auðvitað felst í því ákveðin gagnrýni á það með hvaða hætti ég hef sjálfur stundum staðið að málum og ég held að við séum á slíkri stund í sögu þings og þjóðar og andspænis slíku uppgjöri að við hljótum öll að þurfa að líta af gagnrýni — eða flest, ekki öll, a.m.k. mörg — í eigin barm og setja okkur markmið um hluti sem við viljum breyta, ekki vegna þess að fortíðin hafi bara verið ómöguleg heldur vegna þess að þær aðstæður sem við erum í nú eru með þeim hætti að við getum sannarlega gert betur á mjög mörgum sviðum. Við eigum að reyna að gera það og ég held að við eigum að reyna að ná saman um að breyta þessari menningu okkar. Í því held ég að hv. þm. Pétur Blöndal hafi iðulega talað hér fyrir auknu sjálfstæði og aðhaldshlutverki þingsins. Ég hef oft tekið undir það með honum og ég hygg að við höfum báðir sýnt á köflum að við værum færir um að gera það. Ég held að við þurfum einfaldlega að efla þann þátt í samfélagi okkar og stjórnkerfi sem þingið og sjálfstæði þess er.