138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um umræðuhefðina í þinginu vil ég segja að um leið og ég er sannfærður um að við getum gert miklu betur í því en við erum að gera, er það líka vissa mín eftir að hafa starfað á þinginu á áttunda ár að frá því að hrunið varð hefur sannarlega ýmislegt breyst í þeirri umræðuhefð. Það hefur færst í vöxt að mál sem flutt hafa verið af þingmönnum fái hljómgrunn eða nái fram að ganga, það eru a.m.k. líkur til þess á þessu þingi að þau nái fram að ganga. Breytingar á stjórnarfrumvörpum eru gerðar í ríkari mæli og það er líka algengara en áður að þingmenn nái saman við vinnslu málanna þvert á suma flokka. Að ýmsu leyti hafi verið tekin þar skref til batnaðar en ég held að við þurfum að gera miklu betur. Hluti af því er að endurskoða grunnskipulagið sem við störfum eftir og ég held að við eigum til að mynda að fækka nefndunum í þinginu, stækka málasvið þeirra, efla þær þannig að þingmenn starfi fyrst og fremst í einni nefnd. Við eigum að opna nefndastarfið og gera ýmsar aðrar breytingar til að efla og styrkja líka eftirlitshlutverk þingsins.

Þingmaðurinn spyr um eflingu á fjórða valdþættinum, fjölmiðlunum. Þar ætla ég að viðurkenna að ég hef ekki fram að færa neinar patentlausnir en ég bendi einfaldlega á það sem eitt af meginverkefnunum sem fram undan eru er að efla hvern málsþátt fyrir sig, (Forseti hringir.) framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið, dómsvaldið og fjórða valdið, fjölmiðlavaldið, og sjálfstæði hvers þáttar. En hvernig við gerum það verður að koma í ljós. (Forseti hringir.)