138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þótti það vel til fundið hjá hv. þingmanni að nefna annað þeirra þingmannamála sem náð hefur fram að ganga vegna þess að það kemur frá þingmanni stjórnarandstöðunnar. Fyrr á árunum var býsna sjaldgæft að þingmannamál næðu fram að ganga. Það lýtur einmitt að því að ráðherrar séu ekki jafnframt … (Gripið fram í.) — Já, afsakaðu, nú förlast þingmanninum. En ég held að til að mynda mál sem flutt hafa verið af þingmönnum um að ráðherrar eigi ekki jafnframt að vera þingmenn eða að við eigum að gera slíkan skýran greinarmun á framkvæmdarvaldinu annars vegar og löggjafarvaldinu hins vegar skapi betri möguleika fyrir þingið til að eiga síðan samræðu við framkvæmdarvaldið og veita því eftirlit á vettvangi þingsins. Ég held að það sé sannarlega mjög aukinn áhugi á ýmsum slíkum atriðum í öllum flokkum og sé hluti af því stóra verkefni að bæta og auka stjórnmálamenningu okkar með því að efla valdþættina, greina á milli þeirra og síðan auðvitað að veita gagnsæi þeirra og upplýsingar allar um það sem þeir eru að gera. Það er líka hluti af því að veita öllum valdþáttunum aðhald, að opna þá og hafa þá sem gagnsæjasta.