138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil endilega hvetja hv. þm. Árna Johnsen til að halda áfram að lesa skýrsluna. (Gripið fram í.) Hins vegar mundi ég líka gjarnan vilja benda á ákveðna blaðsíðu sem ég held að geti verið mjög hollt fyrir þingmanninn að lesa, það er 8. bindi, bls. 179. Þar er talað um lýðræðislega umræðu. Það er talað um hvernig umræðan hefur verið hér á Íslandi, í íslenskum stjórnmálum, það er talað um hugtakið „samræðustjórnmál“. Hugtakið á rætur sínar í þeirri hugsjón að þingið sé vettvangur rökræðu sem tekur öðru fremur mið af almannahagsmunum. Markmið rökræðu er að lýsa upp málefni, því verður hún að byggja á upplýsingum um staðreyndir mála. Sá sem stundar rökræðu af heilindum leitast við að hafa það sem sannara reynist. Það snýst ekki um að hafa betur en sá sem maður ræðir við, heldur snýst það um að ræða málefnalega um hlutina.

Í framhaldi af því sem ég ræddi um varðandi bankana og það sem hv. þingmaður sagði, að það hafi fyrst og fremst verið einstaklingarnir sem stjórnuðu bönkunum sem fóru offari, að þeir hafi farið með okkur, vil ég segja að atvinnugrein sem við þekkjum mjög vel, sjávarútvegurinn, skuldar milli 400 og 500 milljarða. Ég held að það sé eitt af því sem við þyrftum kannski að hafa í huga þegar við fullyrðum að enginn úti á landsbyggðinni hafi nokkurn tíma farið offari í meðferð verðmæta og fjármuna þjóðarinnar.