138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:22]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég tek hér aftur til máls um þessa virðulegu og góðu skýrslu, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eða eins og hún heitir fullu nafni Aðdragandi og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir . Sem betur fer er þessi fyrirsögn „tengdir atburðir“ þarna með og skilgreind í lögum um rannsóknarnefndina því að þeir tengdu atburðir hafa leitt ýmislegt í ljós.

Í þessum stutta ræðubút mínum langar mig að fjalla aðeins um viðskiptalífið og stöðu þess eða ákveðna geira þess fyrir og eftir hrun eins og fjallað er um þá í skýrslunni. Á bls. 23 og 24 í 9. bindi um krosseignatengsl, og það er kannski rétt að sýna þingheimi þessa blaðsíðu, það er verið að vinna í því að setja þetta kort á boli, prenta það út og framleiða boli með þessum krosseignatengslum og selja þá. Þessi kort segja meira en mörg orð, nægilega mikið í rauninni til að staðfesta að hér var ekkert eðlilegt viðskiptaumhverfi og að það samkeppnisumhverfi sem þarf að vera til staðar í svokölluðum markaðsbúskap í efnahagsmálum var ekki til. Þó að þessar myndir sýni ákveðna punktstöðu um áramótin 2007/2008 má engu að síður færa rök fyrir því að íslenskt viðskiptalíf hafi aldrei starfað nema þá að tiltölulega litlum hluta í einhverju sem kalla mætti eðlilegt samkeppnisumhverfi. Nú vitum við þetta og þá er stóra spurningin: Hver verður staðan eftir hrun og inn í framtíðina?

Skýrslan sýnir mýmörg dæmi um hvernig staðan var fyrir hrun og það er okkar að ákveða hvernig þetta verður inn í framtíðina. Eitt dæmi — og um það er fjallað ítarlega í skýrslunni — er umhverfi fjármálafyrirtækja og peningamarkaðssjóðanna sem áttu að heita sjálfstæð fyrirtæki. Það var allt saman blekking og það verður að fara fram ítarleg lögreglurannsókn á því hverjum rétt fyrir hrunið var greitt upp í topp úr þessum sjóðum. Skattborgararnir sitja uppi með vel á annað hundrað milljarða króna skattahlass vegna fjárglæframannanna sem stjórnuðu þessum sjóðum og tengsl þeirra stjórnenda við stjórnmálin verður að skoða gaumgæfilega líka. Hverjir fengu allt sitt, hvers vegna og hvað svo? Hvernig ætlum við að hafa svona fjármálakerfi í framtíðinni?

Svo eru það tryggingafélögin og bótasjóðir þeirra. Þar var um að ræða fákeppni í heilum geira hvers tekjur byggðu að stórum hluta á lögboðnum kaupum á þjónustu, t.d. hvað varðar ábyrgðartryggingar á bílum og brunatryggingar heimila. Hvað verður gert við þetta umhverfi í framtíðinni? Það skiptir miklu máli. Það er ekki nóg að hafa eftirávirkandi eftirlit, það verður annaðhvort að koma á skilyrtu samkeppnisumhverfi með tilteknum lágmarksfjölda fyrirtækja í hverjum geira eða hafa virkt forvarnaeftirlit, t.d. í formi hámarksverðs á lögboðnum tryggingum. Það er ekki hægt að afhenda fyrirtækjum á silfurfati fjármuni almennings samkvæmt lögum.

Lífeyrissjóðirnir og lögboðinn skyldusparnaður sem byggt hefur þá upp er sama marki brenndur. Það er ekki ásættanlegt að starfsemi lífeyrissjóðanna verði ekki grandskoðuð eftir að þeir hafa tapað einhvers staðar á bilinu 500–700 milljörðum af lífeyrissparnaði sjóðfélaga. Það verður að tryggja að inn í framtíðina verði ekki farið með þetta kerfi óbreytt og að lífeyrissparnaður fólks verði ekki bundinn inn í fyrir fram ákveðna sjóði. Tryggja þarf að t.d. hið nýja Fjármálaeftirlit gefi út sjálfstætt mat ársfjórðungslega á hversu stöndugir lífeyrissjóðirnir eru og að almenningur fái að færa sparnaðinn sinn á milli sjóða eftir eigin ósk ef sparnaðurinn á að vera lögbundinn.

Hugmyndir hv. þm. Péturs H. Blöndals sem hann viðraði hér í morgun um aukið lýðræði í lífeyrissjóðum fara langa leið með að leiðrétta þetta að hluta og það er nauðsynlegt að tekið verði betur á þessum málum. Það er hins vegar samkeppnisumhverfið eitt, og jafnvel eitt sér ef umhverfið er rétt, sem tryggir bestu úrlausn í viðskiptum og takmarkar verulega þörfina fyrir eftirlit. Við það fámenni sem við búum hins vegar á Íslandi er erfitt að koma á fullkomnu samkeppnisumhverfi í hagkerfinu almennt og ef ekki er til staðar samkeppni í einhverjum geirum atvinnulífsins samkvæmt fyrir fram skilgreindum aðstæðum, eins og t.d. lágmarksfjölda fyrirtækja, verður a.m.k. að aflétta öllum lögboðnum skylduákvæðum sem krefjast þess að almenningur annaðhvort kaupi ákveðna þjónustu, svo sem ábyrgðartryggingar bíla, eða leggi sparnað sinn inn í ákveðna skilgreinda sjóði.

Með tilliti til lífeyrissjóðanna og aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að stjórnum þeirra sýnist augljóst að sú aðkoma hefur síður en svo tryggt öryggi lífeyrissparnaðarins og að þörf er á endurskoðun á skylduaðild almennings að ákveðnum stéttarfélögum líka ef fyrirkomulagi og starfsemi þeirra verður ekki breytt.

Margs ber að gæta í framtíðinni vegna þessarar skýrslu og vonandi fáum við (Forseti hringir.) nægilegt tækifæri til að tjá okkur um hana því að það eru ótal atriði hér sem þarf að taka á.