138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór í stuttu máli í gegnum það sem hann átti eftir að fjalla um í skýrslunni og ég þakka honum fyrir það. Hann nefnir krosseignarhaldið og sýndi okkur töflu og í sjálfu sér var ég ekkert hissa á þessari töflu eða þessari skrautlegu mynd nema að hún var ögn þéttriðnari en ég gat ímyndað mér áður en skýrslan kom fram, en ég hafði alveg ímyndað mér að þetta væri ansi þéttriðið.

Þá er það spurning mín til hv. þingmanns: Hvaða úrbætur sér hann í þessu? Það vill svo til að ég hef flutt frumvarp um gagnsæ hlutafélög þar sem ég reyni að laga þetta af öllum mætti vegna þess að ég tel mig hafa sýnt fram á í fylgiriti I með því frumvarpi, sem liggur hér á borðum þingmanna eða í tölvum, að það er galli í hlutabréfaforminu sjálfu. Ekki þegar einstaklingur kaupir hlut til að takmarka áhættu sína í atvinnurekstri heldur þegar hlutafélög fara að stofna og eiga í öðrum hlutafélögum og svo aftur og aftur og aftur, kannski 20, 30, 40 sinnum, og þetta dreifist út og suður með lánveitingum inn á milli, sum félög eru í rekstri og önnur ekki o.s.frv. Ég sé enga lausn á þessu öðruvísi en að menn setji mjög sterkar kvaðir á hlutabréfaformið sem felst í því að búa til gagnsæ hlutafélög.

Þetta er alþjóðlegt vandamál, þetta er ekki íslenskt vandamál, þetta er um allan heim. Þess vegna sagði ég í gær að það væri svo mikilvægt að heimurinn reyndi að læra af Íslendingum því að hérna brotnaði undiraldan sem gengur um allan heim.

Varðandi lífeyrissjóðina, ég get tekið undir það, og ég hef margoft sagt að menn eiga annaðhvort að kjósa með fótunum með því að geta skipt um lífeyrissjóð eða með höndunum með því að kjósa stjórnina beint en hvorugt er í dag.