138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi það að hlutafélög eigi ekki að eiga í öðrum hlutafélögum. Oft er það þannig að menn vilja aðgreina rekstur, t.d. Flugleiðir sem áttu í bílaleigu og í hótelkeðju og annað slíkt, þeir vilja takmarka áhættu hlutafélagsins og ég held að það séu réttmæt rök fyrir því að menn fari þá leið. Ég fjalla einmitt um það í þessu frumvarpi að einfaldasta leiðin væri náttúrlega að banna hlutafélögum að eiga í hlutafélögum — ég held að það yrði ekki vinsælt, alla vega ekki úti í heimi ef við ætlum að breyta því þar líka — og þá reyndi maður að finna einhver skilyrði sem þarf að setja á hlutafélög þannig að svona hringrás peninga geti ekki átt sér stað eins og við sjáum í þessu neti sem hv. þingmaður sýndi.

Ég vona að ég sé búinn að koma í veg fyrir það með þessari skilgreiningu á gagnsæjum hlutafélögum, það er ekki víst og þess vegna legg ég mjög mikla áherslu á það að hv. Alþingi fari að fjalla um þetta í 1. umr. og jafnvel umræðulaust og fái að fara að senda þetta út til umsagnar, þannig að við fáum til baka umsagnir endurskoðenda, Verslunarráðs, Samtaka atvinnulífsins og ASÍ og annarra sem hefðbundið gefa umsagnir. Ég tel mjög brýnt að við finnum á þessu lausn því að án þessa verður ekki traust aftur á hlutabréfum. Ég get ekki séð að nokkur einasti maður kaupi hlutabréf eftir að hafa séð stærstu eigendurna hola hlutafélögin að innan og það er ekkert sem menn hafa gert hingað til sem breytir því, ekkert.

Og varðandi lífeyrissjóðina, lífeyrissjóðirnir eru afl í þjóðfélaginu og þetta afl er í höndum Samtaka atvinnulífsins og ASÍ. Þetta er hryggurinn í valdi þeirra og þess vegna er svo ógurlega erfitt að breyta þessu. Það var reynt hérna fyrir nokkrum árum, heilt sumar stóð formaður efnahags- og skattanefndar, efnahags- og viðskiptanefndar þá, í því að semja við þá (Forseti hringir.) og það þokaðist ekki hænufet.