138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:34]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hlutafélagaformið og það fyrirbæri að geta fjárfest í einhverjum viðskiptum með takmarkaðri ábyrgð, sennilega hefur fátt leitt til meiri efnahagslegrar velferðar en uppfinningin á því fyrirbæri. Það gerir mönnum kleift að fjárfesta og efnast án þess hugsanlega að tapa öllum sínum persónulegu eigum. Sú takmarkaða ábyrgð verður hins vegar náttúrlega að hafa takmörk líka og í krosseignatengslum eins og þau koma fram í þessari mynd, sem er alveg brjálæðisleg, verður einfaldlega að takmarka möguleika manna á slíku á einhverja vegu.

Það er svo spurning eftir hrun eins og hér hefur orðið hvort ekki sé fyllilega réttmætt að setja einhver afturvirk lög þar sem þeirri takmörkuðu ábyrgð sem menn báru í aðdraganda og í þessu hruni verði einfaldlega aflétt og menn verði gerðir persónulega ábyrgir í miklu meira mæli en gert er almennt.

Hvað varðar Samtök atvinnulífsins og lífeyrissjóðina er þetta áhugaverð statistík því að aðkoma Samtaka atvinnulífsins og Verslunarráðs að þingmálum hefur verið með þeim hætti að ég er alveg rasandi hissa. Það ratar varla hér í gegn þingmál án þess að þau séu kvödd til umsagnar fyrir nefndum þrátt fyrir að Samtök atvinnulífsins séu eingöngu með 31% af vinnuafli í landinu undir sínum verndarvæng og 10% af fyrirtækjunum. Þau fá umsagnir um nánast hvert einasta frumvarp sem fer hér í gegn. Samtök atvinnulífsins eru fyrst og fremst í hagsmunagæslu fyrir ákveðin fyrirtæki og ákveðna geira atvinnulífsins og það er alls ekki ásættanlegt að þau fái að hafa þetta mikla vægi í umsögnum um frumvörp eins og þau hafa gert hingað til. Þetta er atriði sem þingið sjálft þarf að skoða og getur mjög auðveldlega lagað ef vilji er fyrir hendi.