138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir alveg ágæta ræðu, sérstaklega hvernig við ætlum að vinna úr skýrslunni til framtíðar, og ég er mjög reiðubúinn til þess að vinna með hv. þingmanni og fleiri góðum hv. þingmönnum að því að móta stefnu til framtíðar á grundvelli þessarar skýrslu.

Hún talaði hins vegar um mistök við efnahagsstjórn og þar nefnir skýrslan skattalækkanir á viðsjárverðum tímum en hv. þingmaður nefndi það ekki og ég saknaði þess. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann, af því að ég hef nefnilega verið að velta því fyrir mér, frú forseti, að prósentur í sköttum voru vissulega lækkaðar og umtalsvert sums staðar, t.d. í erfðafjárskatti o.fl. En skattstofnarnir stækkuðu, jafnvel í erfðafjárskatti, merkilegt nokk. Hann stækkaði svo mikið að miklu lægri prósentur gáfu ríkissjóði miklu hærri tekjur, þ.e. skattaáþján á atvinnulíf og einstaklinga óx. Menn borguðu hlutfallslega stærri hluta af kökunni til ríkisins, líka mælt í þjóðarframleiðslu, sama á hvaða mælikvarða manni dettur í hug að mæla þetta. Skattaáþjánin jókst.

Ég vil velta því hér upp: Var þetta skattalækkun eða var þetta skattahækkun? Ég hef ekki fengið almennilegt svar við því. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji þetta vera skattahækkun eða skattalækkun, þessar prósentulækkanir sem gáfu meiri skatttekjur í ríkissjóð, meira að segja svo að hægt var að auka velferðarkerfið í 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins — sem sumir segja að hafi verið einn að völdum — um 70% umfram verðlag, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að heita velferðarflokkur eftir þetta. Samt var afgangur á ríkissjóði.