138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Ég get tekið undir margt sem þar kom fram, sérstaklega að okkur ber sem alþingismönnum að vinna saman að nýju stjórnskipulagi og vonandi verður margt af því sem hún nefndi að veruleika.

Mig langar þó að benda á eitt og það er að í þessari rannsóknarskýrslu ræðum við um atvik og atburði sem fyrirrennarar okkar gerðu. Við gagnrýnum það og hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur varð tíðrætt um þau mistök sem voru gerð við einkavæðinguna. Ég gat ekki skilið hana betur en að hún teldi að það væri rót vandans, hvar sem hann væri. Ég hefði viljað heyra eitthvað um þátt Samfylkingarinnar eftir að hún tók við völdum árið 2007 en það bíður kannski betri tíma.

Einkavæðingin á sínum tíma var hrikaleg mistök, ég held að engum blöðum sé um það að fletta. Hins vegar voru bankarnir einkavæddir á ný nú rétt fyrir jól í skjóli nætur. (PHB: Uss.) Já, það er rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal bendir á, um það má víst ekki ræða. Það var gert með svo mikilli leynd að það gleymdist að fá heimild Alþingis til þess og við bentum á að það væri svolítið sérstakt. Vandamálið er að við vitum ekki hverjir eiga bankana í dag. Í sjálfu sér veit það enginn og ríkisstjórnin og formenn flokkanna hafa svolítið verið að vandræðast með þetta. Ég spyr hv. þingmann: Hefur hún engar áhyggjur af þessu? Hefur hún ekki áhyggjur af því að sú ríkisstjórn sem nú er sé hugsanlega að gera sömu mistök og fyrirrennarar hennar gerðu fyrir um átta árum síðan? Það er búið að einkavæða bankana en (Forseti hringir.) við vitum ekki hverjir eigendurnir eru.