138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætt svar. Það er heiðarlegt að koma fram og lýsa því yfir að menn skorist ekki undan umræðunni, enda hefur þingmaðurinn ekki gert það og ég mun aldrei saka hana um það.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að erlendir kröfuhafar eiga bankana í dag. Hverjir eru það? Ef við veltum því aðeins fyrir okkur þá eru þetta aðilar sem störfuðu mjög náið með þeim sem áttu bankana áður. Það voru þeir sem dældu peningum inn í bankana. Það voru þeir sem tóku gríðarlega áhættu með því að fjárfesta í íslensku bankakerfi. (Gripið fram í.) Ég hef miklar áhyggjur af því að þessir aðilar séu kannski ekki skömminni skárri en þeir sem ráku bankana áður og það er fullkomið ábyrgðarleysi að vita ekki hvert eignarhaldið er eða hvert það muni fara. Það er á ábyrgð okkar sem störfum á Alþingi í dag.

Við getum rætt og farið yfir mistök fortíðarinnar, mistök annarra, það er auðvelt að tala um það. En erum við að gera sömu mistök? Er ríkisstjórnin að gera sömu mistök? Ég óttast að því miður hafi hlutirnir kannski ekki breyst til hins betra og ég skora á hv. þingmann — vegna þess að ég veit að hún er áfram um að breyta hlutunum — að skorast aldrei undan því að benda á það sem miður fer, jafnvel þó að um eigin flokk sé að ræða.