138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að mér hafi tekist að skýra þetta og þetta liggi ljóst fyrir, að kröfuhafarnir, þar eru kröfulýsingarlistarnir einfaldlega til staðar og hv. þingmaður getur skoðað þá, þeir eru óbeinir, það má segja að þeir séu óbeinir eigendur að bönkunum í gegnum skilanefndirnar sem aftur eiga eignarhaldsfélag sem heldur í einu lagi utan um þessa eign búsins eins og hverja aðra. Fjármálaeftirlitið setur síðan strangar reglur um það hvernig stjórn er fyrir komið og annað í þeim dúr. Þetta liggur því mjög skýrt fyrir. Það er engin ástæða til þess að draga hér upp einhverja tortryggilega mynd af þessu. Þetta er eins og þetta er.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann: Hvað vill hann þá? Telur hann að ríkið hefði átt frekar að velja þann kost að eiga bankana og binda þetta gríðarlega fé sem til þess hefði þurft með milljarðatuga vaxtagreiðslum á ári í viðbótarkostnað sem af því hefði leitt? Ríkið hefur nóg með sig og þær fjárskuldbindingar sem hrunið því miður hefur sett á okkar herðar. Það er ekki hægt að mæla því á móti að þetta var ákaflega hagfelld lausn fyrir ríkið, að þurfa ekki að reiða fram þetta fé og borga af því vexti og binda það og taka á sig þær skuldir og þær skuldbindingar sem því fylgdu. Auðvitað er þarna vonandi eign á móti sem hugsanlega einhvern tímann inn í framtíðina væri hægt að afsetja og jafnvel græða á en það vitum við ekki nú. Frá sjónarhóli okkar stöðu núna var þetta mjög góður kostur.

Hverjir voru þá hinir kostirnir? Ja, hvað leggur hv. þingmaður til? Átti ríkið þá að hafna því vegna þessara vankanta sem hv. þingmaður er hér að gera mikið úr? Átti ríkið að eiga bankana sjálft? Er það það sem hv. þingmaður er að leggja til eða átti enginn að eiga þá?